Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hættustig almannavarna lækkað við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Almannavarnastig vegna eldgossins í Geldingadölum hefur verið lækkað úr hættustigi niður í óvissustig. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sem tók ákvörðunina í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum.

Þar segir að enn sé fylgst með svæðinu með tilliti til aukinnar skjálftavirkni, óróa og landbreytinga. Undanfarnar fjórar vikur hefur engin virkni verið í gígnum í Geldingadölum og skjálftavirkni sunnan Keilis sem jókst í byrjun október hefur legið niðri undanfarna daga.

Fólki er áfram ráðlagt frá að ganga á hraunbreiðunni eða nálgast gíginn þar sem áfram má vænta hættu á svæðinu. Almannavarnastig var lækkað úr neyðarstigi niður í hættustig 20. mars síðastliðinn.