Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dæmi um að vanti réttindakennara í yfir 30% starfa

18.10.2021 - 17:24
Mynd: RÚV / RÚV
Hlutfall réttindalausra sem vinna við kennslu í grunnskólum landsins var 16% á síðasta ári, en er mjög misjafnt eftir landshlutum.

Ástandið best á Norðurlandi 

Það er lægst á Norðurlandi eystra og vestra, eða 9%, en hæst á Vestfjörðum, Suðurnesjum og Austurlandi, um og yfir 30%.  Þetta kemur fram í talnaefni á vef Kennarasambands Íslands. 

Álag í starfi og auknar kröfur

Nærri 5600 manns starfa við grunnskólakennslu. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara segir að ýmsar ástæður séu fyrir kennaraskorti. Starfskjör, álag í starfi, auknar kröfur vegna skóla án aðgreiningar, fjöldi nemenda á kennara og fleira. 

Sérð ekki til lands fyrr en að vori

„Tölur hafa líka sýnt að við erum með nægilega marga menntaða kennara á Íslandi" segir Þorgerður. „Það þarf hins vegar að fá þá til að koma aftur inn í starfið. Spurningin er hvort að þetta lokaða form sem hefur verið um grunnskólann, þar sem þú ferð hreinlega um borð 20. ágúst og svo sérðu ekki til lands fyrr en að vori, hvort að þetta sé nútímalegt.

Það  er kallað mikið eftir sveigjanleika í starfi og það er ekki eðlilegt að það sé sami nemendastuðull á bak við hvert stöðugildi kennara í dag og árið 1998" segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara.

Ítarlega er rætt við Þorgerði í Speglinum. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV