Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

20-40 bíða á bráðamóttöku

18.10.2021 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Það ræðst af mörgum þáttum hvort færa þarf Landspítala af óvissustigi yfir á hættustig. Þetta kemur fram í minnisblaði til heilbrigðisráðuneytisins. Ef spítalinn verður færður á hættustig verður dregið úr annarri starfsemi. Sóttvarnalæknir óttast að ef öllum takmörkunum verði hætt fjölgi smitum líkt og gerðist síðasta sumar. 

Minnisblað Landspítalans er dagsett á föstudag og þá lágu fjórir covid-sjúklingar inni. Samkvæmt upplýsingum á vefnum covid punktur is liggja sjö inni á sjúkrahúsi núna. Ríflega fimm hundruð manns eru með sjúkdóminn og eru tvö hundruð þeirra börn. Þau veikjast í flestum tilvikum lítið. Þá kemur fram í minnisblaði Landspítala að á covid-göngudeild sé nú verið að draga úr þjónustu við börn og starfsfólk einbeiti sér að fullorðnum.

20-40 bíða á bráðamóttöku eftir innlögn

Það sem mestu ráði um þolmörk spítalans sé mönnun og framboð á legurýmum. Þá myndi slæmur inflúensufaraldur valda álagi á allt spítalakerfið. Eins og staðan sé þessa dagana bíði 20-40 manns á bráðamóttöku við ófullnægjandi aðstæður eftir því að leggjast inn á deildir spítalans. Þá eru allar bráðalegudeildir nýttar til fulls og afar lítið svigrúm fyrir auka álag.

Í minnisblaðinu er því lýst hvernig hugsanlega væri hægt að leggja inn fleiri covid-sjúklinga. Það væri hægt með því að losa pláss á smitsjúkdóma- og lungnadeildum. Stundum er unnt að flytja sjúklinga annað en oft ekki. Þetta er meðal þess sem haft er til hliðsjónar þegar viðbúnaðarstig spítalans eru endurskoðuð. Núna er hann á óvissustigi. Ef spítalinn verður færður á hættustig verður dregið úr annarri starfsemi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir stillti upp þremur kostum í minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Einn þeirra er að aflétta öllum sóttvarnaraðgerðum.

„Ég held að ókostirnir við það séu þeir að við gætum lent í því sama og við lentum í í sumar þegar við afléttum öllu. Það er þá spurningin: er kerfið okkar og spítalakerfið tilbúið til að taka við því? Það er helsta áhyggjuefnið mitt,“ segir Þórólfur.
 

Fréttin hefur verið uppfærð.