Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skora á Bláfugl og SA að virða niðurstöðu félagsdóms

17.10.2021 - 09:11
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd
Félag íslenskra atvinnuflugmanna skorar á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að virða niðurstöðu félagsdóms um að uppsagnir ellefu flugmanna hjá Bláfugli hafi verið ólögmætar. Það sé krafa réttarríkisins að kjarasamningar séu virtir.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna sakaði flugfélagið Bláfugl um brot á kjarasamningum vegna uppsagna 11 flugmanna félagsins í upphafi þessa árs. Bláfugl hafnaði áskorun FÍA um að draga uppsagnirnar til baka og koma þess í stað að samningaborðinu. Félagsdómur úrskurðaði um miðjan september að uppsagnir flugmannanna hafi verið ólögmætar.

Meirihluti félagsdóms féllst ekki á kröfu FÍA um að Bláfugli beri að endurráða flugmennina eða að fyrirtækið ætti að greiða sekt. Tveir af fimm dómurum skiluðu séráliti um þá kröfu og sögðu Bláfugli bera að endurráða þá.

Í yfirlýsingu frá FÍA er skorað á Bláfugl og Samtök atvinnulífsins að fara eftir niðurstöðu dómsins og virða þann kjarasamning sem er í gildi. 

„Það hlýtur að vera krafa okkar í því réttarríki sem við búum í að íslensk fyrirtæki virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla. Það er með öllu óásættanlegt að svona viðhorf og framganga fái að viðgangast í okkar samfélagi. Hér er að eiga sér stað alvarleg atlaga að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi. Samhliða þessu er skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.“ segir í yfirlýsingunni.

Sonja Bjarnadóttir er lögfræðingur Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

„Þegar þessum flugmönnum er sagt upp þá voru ráðnir inn jafnmargir gerviverktakar í gegnum erlenda starfsmannaleigu og þeim greidd helmingi lægri laun. Þess vegna er þetta mikilvægt fyrir allt samfélgið að þetta gerist ekki í fleiri stéttum, að það sé ekki sagt upp meira og minna öllum launþegum landsins á kjarasamningum sagt upp og verktakar ráðnir inn í staðin á helmingi lægri launum.“ segir Sonja.

Hún segir niðurstöðu dómsins vera skýra um að kjarasamningur FÍA við Bláfugl sé enn í fullu gildi sem og að 11 flugmenn á kjarasamningi félagsins eigi að vera við störf hjá félginu og eigi forgang að 11 stöðugildum hjá Bláfugli.

„Við höfum aftur á móti fengið það viðmót frá SA fyrir hönd Bláfugls að þau telji að þessi samningur og þessi dómur hafi ekkert gildi þar sem það sé enginn starfandi eftir honum. Við teljum að þarna beri þeir skyldu til að ráða inn 11 menn á kjarasamningi.“ segir Sonja.