Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skoða ætti möguleika á lagningu sæstrengs til Evrópu

17.10.2021 - 13:15
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og stofnandi þingsins Hringborg Norðurslóða. - Mynd: Silfrið / RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og forsvarsmaður þingsins Hringborðs Norðurslóða, segir að Íslendingar ættu að skoða þann möguleika að leggja sæstreng til Evrópu og selja rafmagn á þann hátt. Svo gæti farið að Grænlendingar yrðu fyrri til og myndu óska eftir því við íslensk stjórnvöld að fá að leiða streng til Evrópu, um Ísland.

Rætt var við Ólaf Ragnar í Silfrinu í morgun og nefndi hann Noreg sem dæmi. Stjórnvöld þar hafi gert samninga við Hollendinga, Þjóðverja og Breta um að selja þeim rafmagn, framleitt með vatnsafli, um streng. „Nokkuð sem við Íslendingar viljum ekki enn,“ sagði hann.

Norðmenn hafi sannað að tæknilega sé strengur möguleiki

„Við þurfum að skoða það vegna þess að Norðmenn eru búnir að sanna það að þetta er tæknilega hægt og þetta er aðferðin til að veita Evrópu hreina orku,“ sagði Ólafur Ragnar. „Ég held að mesta vandamálið fyrir okkur á Íslandi, ef við ætlum áfram að segja bann við streng, verður þegar Grænlendingar banka upp á, vegna þess að Grænland er eitt öflugasta forðabúr af vatnsaflsorku sem er eftir á Vesturlöndum, og þeir gætu velt því fyrir sér að koma með streng frá Grænlandi í gegnum Ísland, í gegnum Færeyjar til Bretlands og þaðan til Evrópu.“

Þá standi Íslendingar frammi fyrir þeirri spurningu hvort fara eigi í samvinnu við Grænlendinga og Færeyinga. „Eða ætlum við bara að segja: „Kæru vinir, nei við ætlum að hafa þetta bara hérna hjá okkur.“ 

Mikil orka fer í tækni almennings

Varðandi það hvort þurfi að virkja meira á Íslandi, segir Ólafur Ragnar að fólk þurfi að gera sér grein fyrir því orkufrek tæknin, sem það nýtir dagsdaglega er. Það vilji allir vera áfram á netinu, YouTube og Instagram. Áfram þurfi gagnaver í heiminum og þau þurfi að vera knúin hreinni orku. Ef fólk ætli áfram að vera á netinu, sækja þangað upplýsingar og vera í samskiptum hvert við annað þá þurfi að virkja.  

Ísland fast í sessi sem miðstöð samræðu um Norðurslóðir

Hringborð Norðurslóða hefur staðið í Hörpu síðan á fimmtudag. Þar héldu um fjögur hundruð ræðumenn, frá fimmtíu löndum, erindi og fjöldi vísindamanna og áhrifafólks víða að lagði leið sína til landsins. „Þetta þing festi, að ég held, Ísland endanlega í sessi sem þessa árlegu miðstöð samræðu og samstarfs á Norðurslóðum,“ sagði Ólafur Ragnar í Silfrinu. 

Til marks um mikilvægi þingsins, þá hafi ný sveit Joe Biden, Bandaríkjaforseta, ákveðið að koma til Íslands, nokkrum vikum eftir að hún var sett í embætti. Framkvæmdastjóri umhverfis- og sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu hafi kynnt nýja stefnu þess á þinginu og ný ríkisstjórn Grænlands hafi valið þingið til að kynna heiminum áherslur sínar. 

Hér er hægt að horfa á Silfrið í heild sinni.