Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samsvarar netnotkun hátt í fjögur þúsund heimila

17.10.2021 - 19:12
Mynd: RÚV / RÚV
Tugir milljóna um allan heim fylgjast með heimsmeistarakeppninni í tölvuleiknum League of Legends sem nú stendur yfir í Laugardalshöll. Leikarnir eru haldnir í stærsta stúdíói á Íslandi og netnotkun eykst á við þrjú til fjögur þúsund heimili.

Riðlakeppnin á heimsmeistaramótinu í Leauge of Legends er langt komin og farið að styttast í útsláttarkeppnina. Óvæntustu úrslit dagsins eru sigur evrópska liðsins Fnatic á RNG einu besta liði Kína. Þrátt fyrir það, lítur út fyrir að ekkert evrópskt lið komist áfram. Eins og staðan er nú má jafnvel búast við að aðeins kínversk og kóresk lið komist upp úr riðlakeppni heimsmeistaramótsins þar sem verður barist   í harðri útsláttarkeppni. Það er til mikils að vinna. Verðlaunaféð er um 300 milljónir íslenskra króna sem gæti svo hækkað um aðra eins upphæð því hún byggist á sölu leiksins og seldum aukahlutum á meðan á keppni stendur.

Margir eru áhugasamir um það sem fram fer í Laugardalshöll. Reiknað er með að 160 milljón manns á meðan keppnin stendur yfir en eins er búist við að 50 milljón manns muni horfa á úrslitaleikinn samtímis.
Keppninni er lýst á sextán tungumálum og allt umfang er gríðarlegt. Dísil rafstöðvar eru fyrir utan til að tryggja varaafl ef eitthvað bregður út af en Laugardalshöll er þakin led-skjáum í hólf og gólf, samtals um 1400 fermetrar. Og stúdíóið er stærsta sinnar tegundar sem sett hefur verið upp á Íslandi.  

„Við tengdum Laugardalshöll yfir sæstrenginn okkar til Amsterdam og London, þar eru Riot games með tölvugagnaverin sín og þetta þarf allt að virka hundrað prósent því það má ekkert koma upp á þegar sent er út beint fyrir 50 milljón manns,“ segir Ingvar Bjarnason, lausnasérfræðingur hjá Nova.

Beiðinin um að halda leikana, sem upphaflega áttu að fara fram í Kína, kom með stuttum fyrirvara. „Það má segja að við séum snögg til þegar þarf. Yfirleitt tekur það langan tíma að setja upp allar þessar tengingar og ganga úr skugga um að allt virki 100 prósent og þetta er talið í vikum og jafnvel mánuðum en við græjuðum þetta á tveimur til þremur vikum og þykir bara undur og stórmerki í þessum heimi,“ segir Ingvar

Tryggja þarf afkastagetu upp á tvisvar sinnum 10 gígabit á sekúndu. „Það má segja að þetta sé ígildi 3-4000 heimila í netnotkun. Þannig að það bætast við 3-4000 heimili hér úr laugardalshöllin á meðan þessi leikar standa yfir,“ segir Ingvar.

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir