Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ÖBÍ skorar á þingmenn að sýna hugrekki og dug

Mynd með færslu
 Mynd: ÖBÍ - RÚV
Öryrkjabandalag Íslands skorar á þingmenn af sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks. Þuríður Harpa Sigurðardóttir var endurkjörin formaður sambandsins á aðalfundi þess sem lauk í dag.

„Stór hluti fatlaðs fólks býr við efnislegan skort, þ.e. fátækt, sem opinberaðist þjóðinni í rannsókn Vörðu í haust. Fram til þessa hefur skort mjög á pólitískan vilja til að takast á við vandamálið. Lengur verður ekki beðið, staðan er grafalvarleg og algerlega óviðunandi. Það sæmir okkur ekki sem þjóð að sitja lengur með hendur í skauti. Við erum tilbúin, hvað með ykkur?“

Þetta er meðal ályktana sem samþykktar voru einróma á aðalfundi ÖBÍ. Einnig var samþykkt ályktun þar sem ríkið er hvatt til að samþykkja tafarlaust samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við þann samning.

„Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur um leið og Alþingi kemur saman á 152. löggjafarþingi 2021. Samningurinn kveður á um grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks í heiminum. Réttindin sem felast í skjalinu hafa þó enn ekki verið tryggð hér á landi enda gerist það ekki fyrr en samningurinn hefur verið lögfestur. Þangað til á fatlað fólk á Íslandi ekki þau réttindi sem felast í samningnum. Þessu hafa íslenskir dómstólar slegið föstu, nú síðast með dómi Landsréttar 7. október sl. þar sem borgari átti ekki rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) þrátt fyrir ákvæði samningsins, einkum 19. gr. hans. Íslenska ríkið hefði átt að klára lögfestingu samningsins fyrir mörgum árum síðan. Ef íslenska ríkið hefur raunverulegan vilja til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og jöfn tækifæri óháð fötlun verður að lögfesta samninginn án frekari tafa.“ segir í ályktuninni.

Samningurinn var undirritaður af hálfu ríkisins árið 2007 og fullgiltur árið 2016. Í greinargerð ályktunarinnar segir hins vegar að íslenskir dómstólar líti svo á að samningurinn hafi ekki réttaráhrif hér á landi fyrr en hann er lögfestur, þ.e. hann gerður að lögum frá Alþingi eins og gert var til að mynda með Mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta hafi meðal annars sýnt sig í dómum Hæstaréttar. 

Einnig er vísað í stjórnarsáttmála fráfarandi ríkisstjórnar þar sem segir:

„Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“