Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mjög hvasst í Mýrdal, undir Eyjafjöllum og í Öræfum

17.10.2021 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Austanstormurinn sem nú gengur yfir landið er farinn að láta á sér kræla, en gular veðurviðvaranir tóku gildi núna klukkan fjögur á sunnanverðu landinu, höfuðborgarsvæðinu við Breiðafjörð og Vestfjörðum.

Hvassast verður um landið sunnanvert og búist við að vindur í hviðum geti náð 35 metrum á sekúndu í Mýrdal og undir Eyjafjöllum frá því klukkan fimm og fram á kvöld, og eins í Öræfum við Sandfell og Hof frá því um klukkan sjö og fram til miðnættis. 

Vetrarfærð er víða á landinu og éljagangur um landið norðan og vestanvert. Ökumenn hafa lent í vandræðum á Hellisheiði frá því í hádeginu en þar er mjög hált. Veginum við Hafnarfjall var lokað um klukkan hálf fimm á meðan bíll sem fór út af veginum var dreginn upp á hann aftur. Færðin er erfið á fjallvegum víða á landinu og búið að loka yfir Dynjandisheiði. Þungfært er norður í Árneshrepp og snjóþekja á Bjarnarfjarðarhálsi og Innstrandavegi. Hálka er á Öxnadalsheiði og Fjarðarheiði, Vatnsskarði og á Mjóafjarðarheiði. Snjóþekja á Siglufjarðarvegi og í Grafningi. Annars eru hálkublettir víðast hvar á landinu öllu. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV