Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minntust Alsíringa sem féllu fyrir hendi lögreglu 1961

17.10.2021 - 17:16
epa09527161 French President Emmanuel Macron (C), lays a wreath near the Pont de de Bezons (Bezons bridge) in Colombes near Paris, France, 16 October 2021. Emmanuel Macron becomes the first French president to commemorate the brutal repression of an October 17, 1961 demonstration during which at least 120 Algerians were killed during a protest to support Algerian independence. The bridge was borrowed 60 years ago by Algerian demonstrators who arrived from the neighboring slum de Nanterre at the call of the Algerian independence supporters based in France.  EPA-EFE/Rafael Yaghobzadeh / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Þeirra Alsíringa var minnst í París í dag sem franska lögreglan myrti þennan dag fyrir sextíu árum. Frakklandsforseti sagði í gær að atlaga lögreglunnar væri ófyrirgefanlegur glæpur og hefur verið gagnrýndur fyrir að biðjast ekki formlega afsökunar. 

Efnt var til friðsamlegra mótmæla þennan dag, sautjánda október árið 1961, undir lok baráttu Alsírínga fyrir sjálfstæði frá Frökkum. Þúsundir mótmæltu útgöngubanni um nætur í París sem gilti aðeins um Alsírínga. Á þeim tíma höfðu herskáir sjálfstæðissinnar gert sprengjuárásir í Frakklandi.

„Lögreglan kom og hóf að strádrepa fólk. Þeir börðu það með kylfum í hausinn og spörkuðu í það. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins, segir Said Abtout, einn þeirra sem lifði fjöldamorðin af í viðtali við AP fréttaveituna.

Líkum var varpað í ána Signu. Óljóst er hve margir féllu en sumir sagnfræðingar telja að fjöldinn geti verið allt að þrjú hundruð. 

Emmanuel Macron varð í gær fyrsti forseti Frakklands, sem tekur þátt í minningarathöfn um hina látnu. Þar sagði hann að atlaga lögreglunnar væri ófyrirgefanlegur glæpur. Macron hefur viðurkennt að lögreglan hafi framið morð á þessum degi og að hylmt hafi verið yfir málið áratugum saman. Í frétt Aljazeera er haft eftir Maher Mezahi, blaðamanni frá Alsír, að það hafi valdið Alsíríngum vonbrigðum að forsetinn hafi ekki beðist formlega afsökunar. Hann hafi viðurkennt hlut lögreglunnar en ekki hlut franska ríkisins í nýlendustefnu og kynþáttamisrétti.

Alsír var undir stjórn Frakka í 132 ár þar til ríkið hlaut sjálfstæði árið 1962.