Spáð er snjókomu eða slyddu og hiti nálægt frostmarki, en rigningu á láglendi á sunnanverðu landinu seinnipartinn með hita að 7 stigum á þeim slóðum. Bætir enn frekar í vind með suðurströndinni í kvöld, en lægir þar þegar líður á nóttina. Gular viðvaranir taka gildi eftir hádegið í dag á Suðurlandi, norðanverðum Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundi yfir 35 m/s, einkum undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Þá er spá vindi á bilinu 18-25 m/sek á Kjalarnesi og á fjallvegum á Vestfjörðum. Lokað verður upp að gosstöðvunum í Geldingadölum vegna slæmrar veðurspár frá klukkan 13.
Í hugleiðingapistli veðurfræðings segir að þegar sé farið að hvessa á landinu með úrkomu og að það megi búast við leiðindaveðri í dag og í kvöld. Veðrið verður verst með suðurströndinni þar sem spáð er stormi.
„Um hádegisbil má gera ráð fyrir austan strekkingi eða allhvössum vindi víðast hvar, en stormur með suðurströndinni. Það má einnig búast við úrkomu um mestallt land. Nokkuð víða verður slydda eða snjókoma og hiti nálægt frostmarki, en seinnipartinn hlýnar á sunnanverðu landinu og þá verður væntanlega rigning á láglendi á þeim slóðum og allt að 7-8 stiga hiti. Akstursskilyrði á fjallvegum geta orðið erfið í dag og í kvöld og færð gæti jafnvel spillst á sumum þeirra. Þeim sem hyggja á ferðalög er ráðlagt að kynna sér aðstæður áður en lagt er af stað. Í kvöld hvessir enn frekar í verstu strengjunum við suðurströndina, en lægir á þeim slóðum þegar kemur fram á
nóttina. Útlit er fyrir heldur skárra veður á morgun.“ segir í hugleiðingunum.
Þá er spáð austan strekkingi með ringingu um mestallt land og allt að 10 stiga hita sunnanlands. Vestfjarðakjálkinn sker sig hins vegar úr á morgun með verra veðri, þar er spáð norðaustan hvassviðri eða stormi með slyddu.
Uppfært 10:30. Veðurstofan hefur einnig gefið út gula viðvörun fyrir Breiðafjörð. Norðaustan hvassviðri eða stormur, 18 - 25 m/s. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundi yfir 30 m/s, einkum á Barðaströnd.
Fréttin hefur verið uppfærð.