Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kyndilberar ungmennafélagsandans sæmdir gullmerki

Mynd með færslu
 Mynd: UMFÍ - RÚV

Kyndilberar ungmennafélagsandans sæmdir gullmerki

17.10.2021 - 13:14
Hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson ásamt Jóhönnu S. Kristjánsdóttur voru sæmd gullmerki Ungmennafélags Íslands á sambandsþingi UMFÍ í gær.

Við afhendinguna sagði Haukur Valtýsson, fráfarandi formaður að mývesku hjónin Gunnhildur og Sigurbjörn Árni væru kyndilberar ungmennafélagsandans.

„Mývetningarnir og hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson eru alltaf í sama liðinu. Þau eru fyrirmyndir íþróttafólks, kærustupara og hjónakorna og hafa alltaf haft íþróttir og heilbrigt líferni að leiðarljósi sínu. Þessi samheldni sést best á því að þau eru úr sömu sveitinni, fóru saman út til Bandaríkjanna í nám í íþróttafræðum, hafa bæði kennt íþróttir og æft og keppt undir merkjum Héraðssambands Þingeyinga. Samheldnin verður ekki betri! Þau gera alla kappleika lífsins skemmtilegri. Það liggur við að óþarfi sé að kynna þessi sómahjón. Sigurbjörn Árni eru fyrir löngu landsþekktur fyrir lýsingar á frjálsum íþróttum og má vel segja að hvert mannsbarn viti betur hver lýsir 100 metra hlaupi á Olympíuleikum en hverjir eru á brautinni.“ sagði Haukur.

„Þau Gunnhildur og Sigurbjörn Árni eru kyndilberar ungmennafélagsandans. Þau endurspegla allt það góða og káta sem einkennir góða ungmennafélaga. Gullmerki á hvergi betur við en í boðungi hjá góðum ungmennafélaga.“ sagði hann jafnframt. 

Jóhanna er fyrrverandi formaður HSÞ og hefur starfað um árabil á vettvangi UMFÍ. Sambandsþingið stendur yfir um helgina á Húsavík. Þar eru saman komnir um 100 fulltrúar aðildarfélaga UMFÍ.

Við sama tilefni voru Anna Ragnheiður Möller og Kristján Elvar Yngvason gerð að heiðursfélögum UMFÍ og væru sæmd heiðursfélagakrossi.

Anna Ragnheiður Möller, hefur starfað innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar í áratugi. Hún hefur lengi búið í Garðabæ og var formaður fimleikadeildar Stjörnunnar um tíma. Hún var jafnframt formaður Stjörnunnar í þrjú ár, í stjórn knattspyrnudeildar og í ritnefnd félagsins. Þá var Anna í stjórn Fimleikasambandsins og framkvæmdastjóri þar í um tíu ár, í stjórn kvennahlaupsnefnd lengi. Anna var kjörin í stjórn UMFÍ árið 1997 og sat í henni jafnframt í tíu ár. Hún átti sæti í stjórn NSU og var þar formaður í áratug. Anna starfaði lengi hjá Evrópu unga fólksins og í framhaldi af því hjá Rannís.

Kristján er Mývetningur og var í ungmennafélaginu Mývetningi. Hann var formaður þar og sat í ein 15 ár eða þar til hann varð formaður Héraðssambands Þingeyinga.

Kristján var kosinn í stjórn UMFÍ árið 1987 og sat í stjórninni í 14 ár, þar af í tíu ár sem gjaldkeri. Hann sat í fjölmörgum nefndum á vegum UMFÍ, var formaður landsmótsnefndar á Húsavík árið 1987 og Unglingalandsmótsnefnd á Dalvík. Þá var hann formaður Glímusambands Íslands í fjögur ár enda keppnismaður í glímu í áraraðir.Kristján lék sér jafnframt á öðrum vettvangi, það er í knattspyrnu. Kristján hefur alla tíð verið mikill ungmennafélagi og ávallt haft einkunnarorð UMFÍ „Ræktun lýðs og lands‟ að leiðarljósi.

 

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Sortuæxlið er skítadreifari ef það sleppur í gegn“

Ólympíuleikar

Sigurbjörn Árni hefur ekki enn vanist athyglinni

Sjónvarp

Sigurbjörn Árni velur mest aðlaðandi mótherjann