Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blóðþyrst fegurð á stóra sviðinu

Mynd: Íslenski dansflokkurinn / Rómeó ? Júlía

Blóðþyrst fegurð á stóra sviðinu

17.10.2021 - 10:00

Höfundar

Danssýningin Rómeó ♥ Júlía er kraftmikil, gáskafull, lostafengin, falleg og uppfull af húmor segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. „Fyrri hlutinn er gamanleikur, farsakennd rómantísk kómedía þar sem áhorfendur geta ímyndað sér að elskendurnir nái saman á endanum, en síðari hlutinn blóðugur harmleikur.“

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Harmþrungin ást virðist vera þemað í sviðslistum þetta haust, því á fjölum bæði Þjóðleikhúss og Borgarleikhúss er uppfærsla af ástarævintýrinu og harmleiknum Rómeó og Júlíu, eftir William Shakespeare. Eða öllu heldur Rómeó ♥ Júlía eins og danssýningin sem er til umfjöllunar í dag nefnist. Nú þegar er hægt að hlusta á dóm minn um uppfærslu Þorleifs Arnar á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu, en að þessu sinni snúum við okkur að öðru stóru sviði, því sem er í Borgarleikhúsinu. Íslenski dansflokkurinn tekst á við verkið í kóreógrafíu Ernu Ómarsdóttur og Höllu Ólafsdóttur, en þær hafa sótt innblástur og efnivið að hluta til í þekktan ballett Sergei Prokofievs.

Prokofiev er eitt af þekktustu tónskáldum 20. aldar, kunnuglegustu stef hans í íslensku samhengi eru mögulega Pétur og úlfurinn, vinsælt barna- og sinfóníuverk, en ekki er ólíklegt að hlustendur kannist við einhverjar melódíur úr Rómeó og Júlíu. Sá ballett var saminn í Sovétríkjunum 1935, sem var ekki auðveldasti staður eða stund til að skapa list. Prokofiev var undrabarn sem hafði fyrir rússnesku byltinguna náð að skapa sér frama erlendis, en þegar kreppan mikla gerði honum ókleift að skapa óperur og sinfóníuverk ákvað hann að snúa aftur í heimaland sitt þar sem fjármagn var ekki vandamálið þegar það kom að listrænni sköpun. Því miður fyrir Prokofiev reyndist ritskoðun meira vandamál en fjármagn, og Kírov-leikhúsið frestaði sviðsetningu á ballettinum í heil fimm ár af ótta við gagnrýni á úrkynjaðan módernisma.

Svo það sé skýrt þá er Rómeó♥Júlía ekki þessi ballett þó svo tónlist Prokofiev sé alltumlykjandi í sýningu Höllu og Ernu. Þessi sýning var sköpuð í samstarfi við dansara Gärtnerplatz-leikhússins í München og svo endursköpuð af Íslenska dansflokknum. Um er að ræða mikla póstmóderníska afbyggingu þar sem tengingin við upprunann, það er ballett Prokofievs og leikrit Shakespeares, er oft á tíðum ekki skýr. Dansararnir í verkinu eru Ásgeir Helgi Magnússon, Charmene Pang, Emilía Benedikta Gísladóttir, Erna Gunnarsdóttir, Felix Urbina Alejandre, Saga Sigurðardóttir, Shota Inoue, Sigurður Andrean Sigurgeirsson, Una Björg Bjarnadóttir og Védís Kjartansdóttir.

Eins og ég sagði í dómi mínum um uppsetningu Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu fyrr í haust þá má líta svo á að leikritið Rómeó og Júlía skiptist upp í tvo hluta. Fyrri hlutinn er gamanleikur, farsakennd rómantísk kómedía þar sem áhorfendur geta ímyndað sér að elskendurnir nái saman á endanum, en síðari hlutinn blóðugur harmleikur. Þannig er dansverki Ernu og Höllu einnig skipt upp. Verkið hefst á mjög gamansaman hátt þar sem dansararnir stilla sér upp í bleikum búningum, og kynna sig og hlutverk sín, og jú, það eru gamalkunnir karakterar – Tíbalt, Benvólíó, Merkútíó, Fóstra, Rómeó og Júlía, en einnig pizza, pasta, kýr á markaðstorgi og sjálf dögunin. Síðan hefst dansinn þar sem allir dansararnir hlaupa fram og til baka á sviðinu, oft með mjög miklum tilþrifum með vísunum í ballett og skondnum búningaskiptum. Þessi hluti verksins er mjög fyndinn og dansflokkurinn nýtur sín vel. Sérstaklega var skemmtilegt hvernig dansarnir náðu að blekkja áhorfendur í stutta stund með því að fara í hettupeysur og framlengja arma sína með

gúmmíhandleggjum. Þessi hluti sýningarinnar var mjög litríkur og leikandi en maður hafði alltaf á tilfinningunni að eitthvað meira vofði yfir, sérstaklega vegna þess hvernig gyllt en ógnandi leiktjöldin minntu reglulega á sig.

Það er ekki alltaf augljóst hvaðan Erna og Halla hafa sótt innblástur sinn. Í einu atriðinu rís Saga Sigurðardóttir upp úr gylltu hafi með geislakórónu. Hún er sólin, gyllt dögun, en minnir líka örlítið á frelsisstyttuna sem rís upp úr sjónum, ef ekki væri fyrir blóðugar geirvörturnar sem hinir dansararnir skríða í áttina að eins og hungraðir gríslingar í faðmi gyltu. Sú sena er gullfalleg, bókstaflega, og nærvera Sögu töfrandi – en eins og áður sagði ekki með augljósa tengingu við umfjöllunarefni sýningarinnar. Frekar en til Shakespeares hugsar maður kannski til ljóðlína eftir Jónas Svafár um morgunsárið blæðandi.

Í síðari hlutanum er nálgunin eilítið klisjukenndari. Þar vofir enn meiri drungi yfir öllu, blómum og krönsum er staflað upp líkt og í jarðarför og hvítklæddir dansarar maka hver aðra blóði. Tengingin við sögu Shakespeares er öllu ljósari, en maður saknar engu að síður mikið leikgleðinnar og fjörsins sem einkenndi fyrri hluta verksins. Þessum hluta er þó haldið uppi með ljóðrænu myndbandsverki Valdimars Jóhannssonar sem var uppfullt af greddu og töluvert áhugaverðara.

Sviðsmynd Chrisander Brun er fjölhæf, og fangar vel þá ægifegurð sem sjúk ást Rómeó og Júlíu felur í sér. Senurnar þar sem gyllt hafið flæðir og umbreytist svo í svart öldurót eru meðal hátinda sýningarinnar. Búningar í sýningunni eru fjölmargir og það eru Karen Briem og Sunneva Ása Weisshappel sem bera ábyrgð á þeim. Það eru margar skemmtilegar hugmyndir og tilboð sem þær koma með, eins og áður sagði voru hettupeysurnar og hendurnar skemmtileg viðbót við dansinn, en það var líka fyndið að sjá eitraða karlmennsku ættbálkasamfélagsins í Verónaborg túlkaða með dönsurum klæddum í loðnar karlmannsbringur. Skúli Sverrisson er skrifaður fyrir tónlistinni, auk Prokofievs, en verkið endar á laginu, Love is in the air eftir ástralska söngvarann John Paul Young.

Á heildina litið er Rómeó♥Júlía vel heppnuð og kraftmikil danssýning, gáskafull, lostafengin, falleg og uppfull af húmor. Það er ekki erfitt að skilja hvers vegna hún fékk tilnefningar til sviðslistaverðlauna út í Þýskalandi enda flestir kaflar í verkinu fagurfræðilega sterkir, að undanskildum þeim blóði drifnustu.

Tengdar fréttir

Leiklist

Frábær kvöldskemmtun með klarinettuleik

Leiklist

Vel skrifuð tragikómedía sem dregst á langinn

Leiklist

Stjörnuleikur í harmrænni og nöturlegri sýningu