Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Balti á það til að henda inn hipp og kúl tónlistarfólki

Mynd:  / 

Balti á það til að henda inn hipp og kúl tónlistarfólki

17.10.2021 - 21:55

Höfundar

Í nýjasta þætti Ófærðar má koma auga á alls kyns þjóðþekkta einstaklinga sem að mati Bjargar Magnúsardóttur og Níels Thibaud Girerd er dæmigert fyrir leikstjórann Baltasar Kormák. Vel hafi verið valið í leikarahópinn sem talar til íslenska áhorfendahópsins á meðan náttúrufegurðin grípur erlenda markaðinn.

Hin vinsæla spennuþáttaröð Ófærð hóf göngu sína að nýju nú í kvöld. Að þessu sinni er morð framið á landi sértrúarsafnaðar norður í landi og draugar fortíðar gera óvænt vart við sig. Þau Björg Magnúsdóttir og Níels Thibaud Girerd velta fyrir sér mögulegum kenningum, hlutverkaskipan og persónusköpun í þessum fyrsta þætti þriðju þáttaraðar.  

„Þetta eru náttúrulega bölvaðar klisjur“ 

„Mér finnst íslensk spennumynda- og þáttagerð alveg brilljant, þetta er alveg ekta fyrir mig,“ segir Níels í samtali við Snærósu Sindradóttur í nýjum hlaðvarpsþætti hennar, Með Ófærð á heilanum. Níels segist líða vel eftir þennan fyrsta þátt enda sé hann mjög hrifinn af öllu sem tengist löggum, sérstaklega þeim sem leysa mál hér á Íslandi og bera góð og gild íslensk nöfn. „Mér finnst þetta æði.“ 

„Maður fer inn í íslenska náttúruheiminn, lögguheiminn,“ segir Björg sem er verulega hrifin af útliti þáttarins og upphafsskotunum. „Þetta skítlúkkar allt.“ Þau eru sammála um að tengingin við menningararf okkar Íslendinga sé vel heppnuð og nefna þar umhverfið, völuspá og víkingaklappið. „Þetta eru náttúrulega bölvaðar klisjur ef maður horfir á það þannig,“ segir hún. „En mér fannst það virka, ég var alveg að kaupa þetta og langaði að sjá meira af þessum jógatíma með öllu þessu frábæra fólki.“  

Eitt af því sem einkennir þetta íslenska minni svo vel er örsamfélagið, þar sem allir þekkja alla og tengingarnar eru orðnar svo flóknar að Björg vill helst fá ættarkort í byrjun þáttar líkt og í Game of Thrones. Þarna má nefna bílferðina þegar Andri sækir fyrrverandi tengdaföður sinn af Litla hrauni og skutlar heim til sín. „Þetta er náttúrulega einn fallegasti bíltúr sem hefur verið filmaður í íslensku bíói,“ segir Níels en það er mjög íslenskt að smábæjarlögregla þurfi að handtaka tengdaföður sinn og afa barnanna sinna.  

Hönnunarljós og huggulegheit hæfa ekki væntingum áhorfenda 

„Honum er plantað þarna, hann fer ekki þangað að eigin frumkvæði,“ segir Níels um Andra og huggulegu, skandinavísku íbúðina hans. Þeim Björgu og Níels þykja innanstokksmunir íbúðarinnar ekki koma heim og saman við þann lögreglumann sem áhorfendur þekkja. „Andri og hönnunarljós, ég er að setja spurningarmerki við þetta,“ segir Björg og Níels veltir því fyrir sér hvers vegna leikstjóri setji Andra inn í þetta umhverfi en hann telur ólíklegt að Andri hafi innréttað íbúðina sjálfur og hafi verið komið þarna fyrir. 

Vönduð og sannfærandi aukahlutverk 

Þá töluðu þau Björg og Níels um svokallaða „rulluskipun“ þáttarins en áberandi þykir þeim hve mikil natni var lögð við hana í minni hlutverkum. Til dæmis má sjá Ingibjörgu Stefánsdóttur, Eurovisionfara og jógakennara, vera mjög sannfærandi í sínu aukahlutverki í hugleiðsluathöfn sértrúarsafnaðarins og Andrea Jónsdóttir, ævirokkari, átti svo sannarlega heima í sínu hlutverki á bak við barinn á rokkbúllunni. „Ég reikna með að hún hafi bara verið að leika sjálfa sig, hún er svo þjóðþekkt persóna að það kemur ekki annað til greina,“ segir Björg.  

„Mér fannst þetta trúverðugt cast í þessa senu,“ segir Björg en allt er þetta andlega sinnað fólk sem var fengið í þessi hlutverk. Níels tekur undir með Björgu, að fengið hafði verið opið og næmt fólk í hlutverk þeirra sem eiga að hugsa um lífið og náttúruna. „Þetta kalla ég vandað scenario,“ segir hann. „Að við tengjum þetta ekki við eitthvað allt annað, í þessu litla samfélagi sem við erum við Íslendingar,“ bætir hann við, það hafi ekki verið fengin nein Solla stirða í þessi hlutverk.  

Margrét Vilhjálmsdóttir á einnig feiknarsterka endurkomu eftir langa fjarveru frá skjánum og þau Egill Ólafsson eru sannfærandi sem rammgöldróttir leiðtogar sértrúarsafnaðar. Ýmsar kenningar eru á lofti um hver aðild þeirra hjúa að morði Ívars gæti verið og kemur upp sú tilgáta að um óæskilegt ástarsamband hafi verið að ræða. En allt í allt er skipun leikara í þennan fyrsta þátt verulega góð að mati þeirra allra.  

Tónlistarfólk fyrir Íslendinginn og snjór fyrir Þjóðverjann  

„Balti á þetta til að henda inn hipp og kúl tónlistarfólki í einhver svona hlutverk,“ segir Björg og á þá við tónlistarmanninn Flona sem birtist á skjánum en einnig Salka Sól var einnig í þáttaröð 2 og gera þau Björg og Níels ráð fyrir að rapparinn MC Gauti fái stærra hlutverk eftir því sem líður á seríuna. Þá fór söngkonan GDRN með stórhlutverk í Netflix þáttaröð Baltasars Kormáks, Kötlu.  

„Ekkert af þessu er eitthvað sem útlendingarnir skilja,“ bætir Snærós við, því auðvitað eru þættirnir líka gerðir fyrir erlendan markað. „Þetta er bara eitthvað fyrir okkur, litlu páskaeggin okkar sem hér erum og áttum okkur á að þarna er Floni,“ segir hún.  

„En náttúruskotin eru fyrir Þjóðverjann! Þar kemur þýski markaðurinn alveg BÚMM!“ segir Björg og segist sjá greinilega hvað er ætlað fyrir erlendan markað og hvað fyrir íslenskan, íslenska náttúrufegurðin er alveg mjólkuð. „Og snjórinn úr fyrstu seríu,“ bætir Níels við. „Pabbi elskar snjóinn,“ segir hann, en faðir Níels býr í Normandy í Frakklandi og fær sinn skammt af Íslandi í gegnum Ófærð.  

Að opna heiminn að nýju 

Björg veltir því fyrir sér hvernig hægt sé að úr farsælli seríu tvö yfir í seríu þrjú og keyra upp spennuna? „Hvernig ætlarðu að halda áfram með eitthvað sem gekk vel?“ Spyr hún því það getur alltaf verið krefjandi að fylgja eftir velgengni. Að hennar mati var uppbyggingin heldur löng en lokaatriðið rammaði allt vel inn og magnaði upp eftirvæntingu fyrir meiru þar sem herdeild af járni og olíu streymir inn í litla þorpið á landsbyggðinni.

Góðir gestir Snærósar Sindradóttur ætla að rýna í hvern einasta þátt af þriðju þáttaröð Ófærðar, spá í það hver sé morðinginn, hvað Andri Ólafsson lögreglumaður fær sér mörg mjólkurglös áður en hann leysir málið og hvort sérsveitin verði nógu snögg á staðinn til að stöðva ófremdarástandið sem skapast hefur í ískalda og torfæra smábænum sem skapar sögusvið þáttanna. Ekki missa af Með Ófærð á heilanum, í hlaðvarpi og Spilaranum, strax að loknum hverjum þætti af Ófærð 3. 

Rætt var við Björg Magnúsdóttur og Níels Thibaud Girerd í hlaðvarpsþættinum Með Ófærð á heilanum. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Ófærðar-garðálfar framleiddir í óþökk aðstandenda

Tónlist

Sjö smáatriði sem enginn tók eftir í Ófærð