Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Aðgerða þörf vegna dýrtíðar og bensínverðs

17.10.2021 - 10:19
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Stjórnvöld hafa tæki í hendi til að tryggja að verðbólga komi ekki hart niður á þeim sem síst skyldi. Lækkun á olíugjaldi og öðrum lífsnauðsynjum er þar á meðal segir forseti ASÍ. Forseti ASÍ segir stjórnvöld þurfa að llíta á álögur á lífsnauðsynjar og þar með talið olíu og grípa til aðgerða til að aukin dýrtíð komi ekki niður á þeim sem síst skyldi.  

Stjórnvöld hafa tæki í hendi til að tryggja að verðbólga komi ekki harkalega niður á fólki segir Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands. Mikilvægt sé að ákvarðanir stjórnvalda nú þurfi að miða að því að hækkanir sem hingað berist utan úr heimi komi ekki niður á þeim sem síst skyldi.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að það er að koma dýrtíð í kjölfar þessarar Covid-kreppu. Í fyrsta lagi þá færir þetta okkur heim sanninn um það að það er ekki launaliðurinn sem drífur verðbólguna áfram heldur eru það margir utanaðkomandi þættir en verðbólga kemur vissulega niður á fólki."

Skattkerfið, álagning á olíu og þvíumlíkt getur þar haft mikil áhrif að sögn Drífu Snædal. Einnig telur hún ástæðu til að athuga hvort endurvekja eigi vaxtabótakerfið ef verðtrygging og vextir hækki upp úr öllu valdi þá þurfi mótvægisaðgerðir að koma til.

„Þeir hópar sem við höfum áhyggjur af í hækkun bensínverðs eru þeir  sem hafa þurft að leita sér að ódýrara húsnæði utan kjarna  utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa að keyra langt að og við höfum gagnrýnt þær ákvarðanir sem hafa verið teknar af stjórnvöldum til að veita tollaívilnanir af bílum, hugmyndir um veggjöld og slíkt það brýtur í bága við þessa hugsun og kemur niður á þeim sem síst skyldi sem þurfa að leita sér að ódýrara húsnæði.Það er ákveðið samspil á milli bensínkostnaðar, samgangna og húsnæðisverðs."
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV