Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tugir létust eftir drykkju á eitruðum landa

16.10.2021 - 23:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átján íbúar hinnar rússnesku Jekatarinbúrgar dóu á laugardag eftir að hafa drukkið eitraðan landa. Lögregla í borginni hefur handtekið tvo menn, grunaða um að hafa bruggað, brennt og selt hinn görótta drykk. Rússneska fréttastofan NTB greinir frá þessu. Haft er eftir lögreglu að allmargir hafi orðið uppvísir að því í Jekaterinbúrg síðustu daga, að „selja áfenga drykki sem hafa stofnað heilbrigði þeirra sem innbyrtu þá í verulega hættu.“

Átján dauðsföll hafa þegar verið rakin til landadrykkjunnar í Jekatarínbúrg og óttast er að þeim eigi eftir að fjölga. Þetta er í annað skiptið á skömmum tíma sem eitraður landi verður áfengisþyrstum Rússum að aldurtila. Í byrjun október létust minnst 36 manns í Orenbúrg eftir drykkju á landa sem talinn er hafa verið drýgður með metanóli, öðru nafni tréspíra.