Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rúmlega 1000 dauðsföll vegna COVID-19 í fyrsta sinn

16.10.2021 - 11:25
epa09523547 Health workers escort a Covid-19 patient to the hospital complex in the Kommunarka settlement in Moscow, Russia, 14 October 2021. Russia is facing a new wave of Covid-19 infections, with additional 986 coronavirus-related deaths reported on 14 October bringing the official coronavirus death toll to 220,315.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tilkynnt var um rúmlega eitt þúsund dauðsföll vegna COVID-19 í Rússlandi en það eru fleiri en hafa látist á einum sólarhring vegna sjúkdómsins frá því faraldurinn hófst. Smitum fjölgar hratt í Rússlandi. Rúmlega 33 þúsund smit greindust í gær en það er metfjöldi þriðja daginn í röð. Virk smit eru nú um 750 þúsund, og hafa aldrei verið fleiri.

Faraldurinn hefur verið í vexti í Rússlandi frá því í sumar. Þar eru fáar takmarkanir í gildi en stjórnvöld hafa haft þá stefnu lengi að ekki megi herða sóttvarnir um of til að tryggja að áhrifin á efnahagslífið verði ekki of mikil. 

Aðeins tæplega þriðjungur þjóðarinnar fullbólusettur. Stjórnvöld hafa hvatt íbúa til að fara í bólusetningu og viðurkennt að það sé óásættanlegt hversu hægt bólusetningin hafi gengið. Þar eru fleiri bóluefni í boði en víðast hvar annars staðar en Rússar hafa áhyggjur af aukaverkunum og með efasemdir um virkni þeirra. Alls hafa rúmlega 222 þúsund látið lífið vegna Covid-19 í Rússlandi, fleiri en í nokkru öðru evrópuríki. 

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnarinnar í Kreml, sagði í morgun að það væri óábyrgt að fara ekki í bólusetningu. Fjöldi smita ætti þó ekki að koma að sök því stjórnvöld segja heilbrigðiskerfið þola álagið. Það gæti þó breyst hratt á meðan fjöldi smita eykst frá degi til dags. Mikhail Muraskho heilbrigðisráðherra hvatti í morgun lækna sem hafa hætt störfum tímabundið vegna faraldursins, að fara í bólusetningu og snúa aftur til starfa. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV