
Fulltrúi Brúnei, sem fer með formennsku í ráðinu um þessar mundir, greindi frá því að niðurstaðan hafi verið afgerandi; leiðtoga herforingjastjórnarinnar yrði ekki boðið á fundinn. Hins vegar hefði ráðið ákveðið að bjóða „ópólitískum fulltrúa frá Mjanmar“ á ráðstefnuna í hans stað.
Átakafælin samtök
ASEAN-samtökin þykja heldur átakafælin og áhrifalítil, segir í frétt AFP-fréttastofunnar, en fordæmdu þó valdarán hersins í Mjanmar með afdráttarlausum hætti. Sú afstaða harðnaði enn þegar herforingjastjórnin hundsaði kröfu samtakanna um að fá að senda fulltrúa til landsins til viðræðna við „alla hlutaðeigandi“ í kjölfar valdaránsins - þar með talda Aung San Suu Kyi, þótt ekki væri hún nefnd með nafni.
Vilja gefa Mjanmar ráðrúm til að koma hlutunum í lag
Í yfirlýsingu utanríkisráðherranna frá fundi gærdagsins segir meðal annars að herforingjastjórnin hafi náð „ófullnægjandi árangri“ við að innleiða fimmþætta áætlun sem leiðtogaráð ASEAN samþykkti og ætlað var að binda enda á ólgu og ofbeldi í landinu.
Þá mæltu utanríkisráðherrar nokkurra aðildarríkja með því að Mjanmar yrði „gefið ráðrúm til að koma skikki á sín innanríkismál og snúa aftur til eðlilegra stjórnarhátta.“ Utanríkisráðherra Mjanmar gerði alvarlegar athugasemdir við ákvarðanir kollega sinna á fundinum, sem færðar voru til bókar.