Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mjanmar útilokað frá leiðtogafundi ASEAN-samtakanna

16.10.2021 - 07:48
Erlent · Asía · Mjanmar · Stjórnmál
epaselect epa08997904 Demonstrators flash the three-finger salute  next to a portrait of detained Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi during a protest against the military coup, in Yangon, Myanmar, 09 February 2021. Thousands of people continued to rally in Yangon despite stern warnings from the military after days of mass protests. Orders were issued on 08 February in major cities and townships banning people from protesting or gathering in groups of more than five. A nighttime curfew was also imposed. Myanmar's military seized power and declared a state of emergency for one year after arresting State Counselor Aung San Suu Kyi, the country's president and other political figures in an early morning raid on 01 February.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Leiðtogi herforingjastjórnarinnar í Mjanmar er óvelkominn á leiðtogafund ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu undir lok mánaðarins. Þetta var ákveðið á neyðarfundi utanríkisráðherra aðildarríkjannaí gær. Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað og fundarefnið var aðeins eitt: Að ákveða hvort bjóða skyldi Min Aung Hlaing, leiðtoga mjanmörsku herforingjastjórnarinnar á leiðtogafundinn, sem haldinn verður í Brúnei 26. - 28. október.

Fulltrúi Brúnei, sem fer með formennsku í ráðinu um þessar mundir, greindi frá því að niðurstaðan hafi verið afgerandi; leiðtoga herforingjastjórnarinnar yrði ekki boðið á fundinn. Hins vegar hefði ráðið ákveðið að bjóða „ópólitískum fulltrúa frá Mjanmar“ á ráðstefnuna í hans stað.

Átakafælin samtök

ASEAN-samtökin þykja heldur átakafælin og áhrifalítil, segir í frétt AFP-fréttastofunnar, en fordæmdu þó valdarán hersins í Mjanmar með afdráttarlausum hætti. Sú afstaða harðnaði enn þegar herforingjastjórnin hundsaði kröfu samtakanna um að fá að senda fulltrúa til landsins til viðræðna við „alla hlutaðeigandi“ í kjölfar valdaránsins - þar með talda Aung San Suu Kyi, þótt ekki væri hún nefnd með nafni.

Vilja gefa Mjanmar ráðrúm til að koma hlutunum í lag

Í yfirlýsingu utanríkisráðherranna frá fundi gærdagsins segir meðal annars að herforingjastjórnin hafi náð „ófullnægjandi árangri“ við að innleiða fimmþætta áætlun sem leiðtogaráð ASEAN samþykkti og ætlað var að binda enda á ólgu og ofbeldi í landinu.

Þá mæltu utanríkisráðherrar nokkurra aðildarríkja með því að Mjanmar yrði „gefið ráðrúm til að koma skikki á sín innanríkismál og snúa aftur til eðlilegra stjórnarhátta.“ Utanríkisráðherra Mjanmar gerði alvarlegar athugasemdir við ákvarðanir kollega sinna á fundinum, sem færðar voru til bókar.