„Það má ekki gleyma því, og nú horfi ég bara á það sem stendur mér bara næst, samstarfsfólk mitt á bráðamóttökunni, að þessi krísa sem hefur birst þar hún lendir langverst á hjúkrunarfræðingunum,“ sagði Eggert í viðtali í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
Hann telur að hver hjúkrunarfræðingur ætti að vera með þrjá, í mesta lagi fjóra sjúklinga í sinni umsjá á hverjum tíma. „Nú eru mínir kollegar þar með kannski átta og upp í tólf í sinni umsjá og þetta náttúrulega gengur ekki.“
Margir sem treysta sér ekki í fullt starf
Mikið álag sé á hjúkrunarfræðingum sem þurfi að hlaupa á vöktunum og komi örþreyttir heim. Fólk sé þreytt andlega og líkamlega og eigi enga orku eftir til að sinna aðstandenum og öðru að vinnu lokinni. Þetta sé ástæða þess að margir hjúkrunarfræðingar treysti sér ekki til að vinna fullt starf og það sé líka vandamál. „Að við höfum ekki skapað þær aðstæður að fólk geti sinnt sinni vinnu og sinnt henni á mannsæmandi hátt.“
Sendu frá sér ákall á dögunum
Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni sendu á dögunum frá sér ákall um aðgerðir þar sem fram kom að sjúklingar væru lagðir í hættu og að líkur á mistökum hafi aukist því að hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk sé yfirkeyrt á vöktum. Aðeins séu rými fyrir 36 veika og slasaða á deildinni en að iðulega fari fjöldi sjúklinga yfir 80 á dag. Allt að 30 sjúklingar bíði innlagnar á legudeildir dögum saman og þegar verst láti bíði 50 sjúklingar innlagnar á dag.
Í þættinum var einnig rætt við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, formann Alzheimer's samtakanna og Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttir, prófessor í heilbrigðishagfræði, um stöðu heilbrigðiskerfisins. Hægt er að hluta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.