Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kannski síðasta tækifærið til að bjarga heiminum

16.10.2021 - 20:34
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Glasgow er síðasta tækifæri þjóða heimsins til að snúa þróuninni við, að mati fyrsta ráðherra Skotlands. Heimsbyggðin hafi ekki gert nóg síðan Parísarsamkomulagið var undirritað fyrir um sex árum og úr því þurfi að bæta.

Þjóðarleiðtogar streyma inn og út um dyrnar á Hellisheiðarvirkjun þessa vikuna, síðast var það krónprins Danmerkur, nú er það fyrsti ráðherra Skotlands sem er í sinni fyrstu opinberu heimsókn síðan faraldurinn skall á. Tilefnið er Arctic Circle, Hringborð norðurslóða í Hörpu.

Sturgeon segir að það sé alltaf gaman að heimsækja Reykjavík, hún hitti bæði forsætisráðherra og forseta Íslands. „Þjóðirnar eiga svo margt sameiginlegt og því er það fjölmargt sem við getum unnið að saman og tengslin eru sterk og ég hlakka til að styrkja þau á komandi árum,“ segir Sturgeon.

Hún heimsótti meðal annars Barnahús sem sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. „Við komum því fyrirkomulagi á í Skotlandi svo að við önnumst betur um börn sem hafa orðið fyrir vanrækslu og misbeitingu en áður.“

Trúir því að smáríki geti haft áhrif

Sturgeon segir að landfræðilega sé það Skotlandi í hag að vinna náið með þjóðum norðurslóða. Enda liggi nyrsti hluti Skotlands nær þeim en Lundúnum. Eðlilega sé meiri fókus á stóru löndin í baráttunni við loftslagsvandann en lítil lönd eins og Ísland og Skotland. „Ef við smáþjóðirnar stöndum saman þá vona ég og trúi að við getum þrýst á stórþjóðirnar til að bregðast hraðar við.“

Ekki nóg gert eftir París 2015

Eftir um tvær vikur hefst loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna COP 26 í Glasgow. Flestir eru sammála um að ráðstefnan verði sú mikilvægasta síðan Parísarsamkomulagið var undirritað árið 2015. „Þjóðir heims hafa alls ekki gert nóg frá því í París. Glasgow, er heimaborgin mín og við hlökkum til að vera gestgjafar þjóða heims en það er mikilvægt að þjóðir heims standi saman og geri það sem þarf á loftslagsráðstefnunni. Niðurstaðan í Glasgow verður að fela í sér samning sem sannfærir fólk um að veiti okkur raunverulegt tækifæri til að takmarka hlýnunina við eina og hálfa gráðu,“ segir Sturgeon. 

Það verði prófsteinn ráðstefnunnar. „Ef við gerum það ekki þá fyrirgefur yngri kynslóðin ekki þeirri kynslóð sem nú er við völd, svo að þetta er stór stund. Kannski síðasta tækifærið sem heimurinn hefur til að gera það sem þarf til að bjarga jörðinni. Ef við gerum það ekki getur mín kynslóð ekki horfst í augu við næstu kynslóðir á komandi árum.“ 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV