Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fylgjast þurfi með umsvifum Kína á norðurslóðum

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Yfirmaður Norðurslóðaskrifstofu Hvíta hússins segir að fylgjast þurfi með tilburðum Kínverja til að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. Hann segir Bandaríkjamenn vera að átta sig á að þeir séu norðurslóðaþjóð.

David Balton hefur unnið að norðurslóðamálum um árabil og stýrði meðal annars Norðurskautsráðinu þegar Bandaríkjamenn gegndu þar forystu á árunum. Nú leiðir hann nýja norðurslóðaskrifstofu Hvíta Hússins í Washington, sem er til marks um breyttar áherslur í þessum málum eftir að ríkisstjórn Joes Biden tók við völdum. 

Balton segir Bandaríkjamenn vera meðvitaða um að þeir séu norðurslóðaríki, þó að lítill hluti Bandaríkjamanna búi á því svæði. „Hvort sem maður býr í Tapika, Dallas eða San Jose hafa norðurslóðir áhrif á líf manns og því er nauðsynlegt að fylgjast með því sem er að gerast þar.“

Rússar og Kínverjar hafa látið sig norðurslóðir varða í auknum mæli. Staða þeirra er þó ólík. Rússland hefur beina hagsmuni sem stærsta land norðurslóða og hefur nú tekið við formennsku í Norðurskautsráðinu. Balton segir að vissulega sé ágreiningur við Rússa um ýmis mál. „Samt sem áður hefur vestrænum þjóðum og aborð við bandaríkin og Ísland tekist að finna sameiginlegan grundvöll með Rússlandi um norðurslóðir. Við höfum getað unnið saman til að semja um mál tengd norðurslóðum og vonandi heldur það áfram.“

Kína er hins vegar í annarri stöðu þar sem þeir eru ekki norðurslóðaþjóð og aðeins áheyrnarfulltrúar í Norðurskautsráðinu. Balton hefur áhyggjur af því að Kínverjar séu að seilast til áhrifa í málum sem eru á forræði Norðurslóðaþjóða.

Spurður hvort þess sjáist merki segir Balton erfitt að svara því. „Kína hefur reynt að fjárfesta víða á norðurslóðum, þar á meðal í Bandaríkjunum. Það hefur hins vegar dregið úr fjárfestingum Kínverja í löndum á borð við Íslandi og Grænlandi. Hluta af því má kannski rekja til heimsfaraldursins en staðbundnir hagsmunir gætu líka átt þátt í því. Við skulum orða að þannig að það þurfi að fylgjast með þessu.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV