Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vetnisverksmiðja í grænum orkugarði á Reyðarfirði

15.10.2021 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd: Reyðarfjörður - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
Stefnt er að því að reisa vetnisverksmiðju í grænum orkugarði við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði. Landsvirkjun, Fjarðabyggð og danski fjárfestingasjóðurinn CIP standa á verkefninu.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir mikla uppbyggingu fyrirhugaða þar í framtíðinni. „Þar mun rísa vetnisverksmiðja og ammóníaksverksmiðja allavega í framhaldi af því. Ásamt því að í orkugarðinum mun byggjast upp mismunandi starfsemi byggð á þessum straumum. Þarna er verið að vinna með efni sem eru náttúrulegustu orkugjafar sem þú færð og um leið stígum við þessu stóru skerf gegn loftslagsvánni og tökum þátt í orkuskiptum og jafnvel hröðum því ferli hér á Íslandi.“

Fjölmargir taka þátt í verkefninu: Fjarðabyggð, Landsvirkjun og danski sjóðurinn CIP sem er í eigu danskra lífeyrissjóða og sérhæfir sig í fjármögnun orkuinnviða víða um heim. Landsvirkjun skoðar meðal annars hvort fullnýta mætti afgangsraforku úr kerfinu til vetnisframleiðslu. Þá getur framleiðsla sem þessi unnið vel með nýtingu vindorku, og hægt að framleiða meira þegar vindar blása. Nýverið bættust Síldarvinnslan, Laxar og Atmonia í hópinn. Síldarvinnslan vill skipta út jarðefnaeldsneyti, Laxar gætu nýtt súrefni við eldi og Atmonia þróar nýja tækni við framleiðslu ammoníaks og nítrats. 

Meginmarkmið Orkugarðsins er að framleiða rafeldsneyti svo sem vetni, en vetninu má breyta í ammóníak eða metanól til að auðvelda flutning. „Rafeldsneyti verður framleitt í heiminum og það verður framleitt í miklu magni til þess að takast á við orkuskipti. Fyrir okkur eru þetta náttúrulega gríðarlega mikil verðmæti ekki bara fyrir Fjarðabyggð heldur landið allt. Þetta mun kalla á störf og fjölbreytileika starfa. Þannig að ég er mjög spenntur og tel að í þessu felist alveg gríðarleg tækifæri. Núna vorumn við að skrifa undir samkomulag um að taka þátt í að nýta hliðarafurðirnar af þessari framleiðslu sem er mikið magn af heitu vatni sem til fellur og við ætlum að skoða það sveitarfélagið. Þá getum við hitaveituvætt Reyðarfjörð. Það er mjög mikilvægt að við nýtum þennan glatvarma sem þarna verður til við rafgreininguna,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV