Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þetta er hræðilega sorglegur atburður“

15.10.2021 - 19:44
Þingmaður Íhaldsflokksins var stunginn til bana á kosningafundi í dag. Þetta er í annað sinn á fimm árum sem breskur þingmaður er myrtur. Fyrsti ráðherra Skotlands, sem stödd er á Íslandi, segir ódæðin vekja upp spurningar um öryggi þingmanna.

„Ég held að allir Bretar séu miður sín og þeim sé mjög brugðið vegna dauða Davids Amess. Þetta er auðvitað annar þingmaðurinn á rúmum fimm árum sem er myrtur á fundi með kjósendum,“ sagði Sturgeon í dag. Hún er gestur Arctic Circle þingsins í Hörpu. 

„Þetta er áfall og auðvitað er hugur okkar hjá fjölskyldu Davids, vinum og kollegum. Þetta er hræðilega sorglegur atburður. Ég held að í fyllingu tímans vakni spurningar um öryggi þingheims. Í lýðræðissamfélagi þurfa stjórnmálamenn að vera aðgengilegir og sæta ítarlegri skoðun en enginn á að þurfa að óttast um líf sit sem fulltrúi kjósenda,“ sagði Sturgeon. 

Var á fundi með kjósendum þegar ráðist var á hann

David Amess var myrtur í heimakjördæmi sínu í dag. Hann var á fundi með kjósendum. Morðinginn hefur verið handtekinn. Hann var á vikulegum fundi með kjósendum sem þingmenn halda yfirleitt á föstudögum þegar þingið starfar ekki. Fundurinn var í kirkju í bænum Leigh-on-Sea í Essex. Amess var stunginn mörgum sinnum.

Sjúkralið kom á staðinn og reyndi allt sem það gat til að bjarga lífi hans, en hann var svo úrskurðaður látinn á vettvangi. Amess var fyrst kjörinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn árið 1983 og hefur einkum beitt sér í dýravelferð, sem og andstöðu við þungunarrof.

Einn handtekinn vegna málsins

Tuttugu og fimm ára gamall maður hefur verið handtekinn, grunaður um morðið. Lögreglan segir að ekki sé leitað að neinum öðrum í tengslum við málið og ekkert hefur verið gefið upp um ástæður morðsins.

Þingmenn breska þingsins hafa hver af öðrum lýst sorg og hryllingi yfir þessum fregnum og vottað aðstandendum Amess samúð sína. Fáninn á embættisbústað forsætisráðherra var dreginn í hálfa stöng í virðingarskyni. En umræðan er þegar farin að snúast um áhyggjur af öryggi þingmanna á fundum eins og þessum.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir