Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gæti þurft að rýma aftur á Seyðisfirði eftir helgi

15.10.2021 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Búist er við mikilli úrkomu á Austurlandi í byrjun næstu viku. Uppsöfnuð úrkoma gæti orðið allt að 120 millimetrar og að mati almannavarna gæti þurft að rýma hús nærri stóra skriðusárinu ofan byggðarinnar á Seyðisfirði.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að búist sé við töluverðri úrkomu á Austurlandi frá því aðfaranótt mánudags og fram á miðvikudagsmorgun. Það gæti því komið til rýmingar húsa undir Botnabrún á Seyðisfirði í nágrenni við stóra skriðusárið frá því í desember í fyrra. Ekki er ljóst hversu viðamikil sú rýming yrði en ákvörðun um það verður tekin um miðjan dag á sunnudaginn.

Samkvæmt veðurspánni byrjar að rigna á Austurlandi á mánudagsmorgun. Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að uppsöfnuð úrkoma þessa daga gæti orðið 100-120 millimetrar. Íbúar á Seyðisfirði eru beðnir um að fylgjast með veðurspá og fréttatilkynningum á sunnudaginn.