Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölmargir greiða yfir 70% ráðstöfunartekna í húsaleigu

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Um tíundi hluti allra leigjenda á landinu ver meira en 70 prósentum ráðstöfunartekna sinna til að borga húsaleigu og ríflega fjórðungur leigjenda þarf að greiða yfir helming tekna sinna í húsaleigu. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var á vef stofnunarinnar í gær.

Í Morgunblaðinu er  haft eftir Ólafi Sindra Helgasyni, yfirhagfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, að hlutfall leigu af ráðstöfunartekjum leigjenda hafi hækkað árið 2020 úr 40 prósentum að meðaltali í 44 prósent, og sé nú 45 prósent. Um 32 þúsund heimili á landinu eru á leigumarkaði að sögn Ólafs.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að leiguverð í þinglýstum samningum á höfuðborginni heldur áfram að lækka lítillega, en tekur stökk í nágrenni höfuðborgarsvæðisins; fer úr 2,3 prósenta hækkun á ársgrundvelli í 7,2 prósent.

Tekið er fram að talsverðar sveiflur séu á þessu svæði vegna fárra samninga og að mikil niðursveifla hafi mælst á sama svæði á sama tíma í fyrra, sem skýri þessi miklu árssveiflu. Annars staðar á landsbyggðinni lækkar vísitala leiguverðs um 2 prósent að jafnaði á milli mánaða. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV