Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm með fjölbreyttasta móti

Mynd með færslu
 Mynd: Titouan Massé Photography - City Slang

Fimm með fjölbreyttasta móti

15.10.2021 - 13:00

Höfundar

Það er boðið upp á alls konar djass í fimmunni að þessu sinni. Við byrjum á hnífamanninum Headie One úr drill-senunni í London og förum þaðan yfir í reggae- og dancehall-töffarana Skip Marley og Popcaan. David Holmes og Raven syngja súrt teknó á ensku og frönsku síðan er það alþjóðlegt fönk frá Los Bitchos og Matthew E. White sem kemur okkur þægilega inn í helgina.

Headie One - Cry

Tottenham drill-rapparinn Irving Ampofo Adjei sem kallar sig Headie One á góðum degi hefur sent frá sér lagið One sem er að finna á hans nýjasta mixteipi, Too Loyal for My Own Good. Í laginu Cry hljóðsmalar hann Busta Rhymes sem hefur skilað honum inn á nokkrar útvarpsstöðvar þar í landi en Headie One hefur átt þónokkur lög á á topp 10 í Englandi, einn og með öðrum.


Skip Marley ft Popcaan - Vibe

Reggae-stjarnan Skip Marley, sem hefur heyrst töluvert í viðtækjum landsmanna ásamt vinkonu sinni Her í laginu Slow Down, fær til sín góðan gest í laginu Vibe. Sá er dancehall-hetjan Popcaan. Plata Skip, Higher Place, var tilnefnd í fyrra sem besta reggae-platan en fúlir gagnrýnendur hafa sagt að hún sé nú ekki alvöru reggae-plata - maður er nokkuð viss um að afi Bob væri nú ekki ánægður með það.


David Holmes ft. Raven - Hope Is The Last Thing To Die

Það er orðið þónokkuð langt síðan tónlistarmaðurinn og pródúserinn David Holmes hefur sungið en það gerir hann í nýjasta lagi sínu Hope Is The Last Thing To Die. Hann kennir blessaðri pestinni um þetta angurværa kvein sitt í nýja laginu en er ánægður með framlag söngkonunnar Raven, sem syngur á ensku og frönsku í laginu, og ætlar henni stórt hlutverk á sinni næstu plötu.


Los Bitchos - Las Panteras

Hin fjölþjóðlega sveit kvenna Los Bitchos þykir með sínu instrumental alþjóðlega fönki minna á Khruangbin á reifi og gefur út sína fyrstu plötu á City Slang í byrjun næsta árs. Alex Kapranos úr Franz Ferdinand er á tökkunum í fyrsta lagi af plötunni Las Panteras hjá stelpunum sem koma frá Englandi, Ástralíu, Svíþjóð og Suður-Ameríku.


Matthew E. White - Let's Ball

Tónlistarmaðurinn og furðufuglinn Matthew E. White sendi frá sér sína þriðju sólóplötu, K Bay, í byrjun september. Í tilefni af því sendi hann frá sér dansmyndband við lagið Let's Ball. Það er þónokkur spenna í tónlistarpressunni fyrir K Bay sem stendur núna í 80/100 á Metacritic, sem er á pari við Big Inner frá 2012 og Fresh Blood frá 2015.


Fimman á Spotify