Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dómur þyngdur fyrir nauðgun á barni

15.10.2021 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir karlmanni sem fundinn hefur verið sekur um að hafa nauðgað stjúp barnabarni sínu. Maðurinn hafði verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness en dómarar Landsréttar þyngdu dóminn í þrjú ár. Maðurinn er ekki talinn eiga sér neinar málsbætur og hefur einnig verið sakfellur fyrir að hafa haft í vörslu sinni þúsundir ljósmynda sem sýna börn á kynferðislegan hátt.

Í dómi Landsréttar segir að litið hafi verið til þess að maðurinn hafi gerst sekur um alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart ungu barni og nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart því, og traust þess og trúnað. Brotin framdi maðurinn yfir tímabil þegar barnið var fimm til sex ára gamalt. Þau voru framin á heimili hans og ömmu barnsins. Hann er sakfelldur fyrir að hafa í nokkur skipti haft önnur kynferðismök en samræði við barnið. 

Spurði við handtöku hvort hann hafi farið yfir mörk

Fram kemur í frumskýrslu lögreglu og framburði lögreglumanns að þegar maðurinn hafi verið handtekinn við upphaf rannsóknar hafi hann velt því mikið sér við handtökuna hvað hann hefði gert og nefnt sérstaklega hvort hann hefði farið yfir einhver mörk gagnvart barnabörnum sínum án þess að hafa gert sér grein fyrir því. Á því stigi vissi hann aðeins að hann væri grunaður um kynferðisbrot, en ekkert nánar um sakargiftir. 

Gat engar skýringar gefið á myndum

Í síma og tölvu mannsins fannst fjöldinn allur af myndefni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt. Í flýtiminni í síma hans fundust yfir 2.500 slíkar ljósmyndir og eitt myndskeið. Hann gat engar skýringar gefið á því hvers vegna myndirnar voru í tölvubúnaði hans og kvaðst ekki hafa vitað af þeim þar. Flestar myndirnar sýna naktar stúlkur, um tíu ára gamlar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir