Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Djass og dauðadómar

Mynd: Menningin / RÚV

Djass og dauðadómar

15.10.2021 - 13:40

Höfundar

Fornleifafræðirannsókn varð að útgefnu tónverki í meðförum listahópsins Dalalæðu sem nýverið gaf út plötuna Dysjar.

Dalalæða er hópur tónlistarmanna, skálda og fræðimanna. Þar á meðal er Hannes Helgason, höfundur og tónlistarmaður. „Það byrjaði með því að við Jóhannes [Birgir Pálmason] vorum að gera aðrar tilraunir með tónlist og hann kom með hugmynd að gera doomdjassverkefni, Dómsdagsdjass,“ segir hann. „Mig var búið að langa lengi að gera djassverkefni með töluðu orði. Það var uppsprettan að þessu. Ég ræddi það við Hannes og þannig þróaðist það áfram,“ segir Jóhannes.

Ein aftaka á ári

Viðfangsefnið í textagerðinni og innblástur tónlistarinnar var sótt í rannsóknarverkefnið Dysjar hinna dæmdu sem fjallar um aftökur á
Íslandi frá 16. til 19. öld. Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði stýrði því og var ráðgjafi í verkefninu Dysjar. „Rannsóknin fjallaði um aftökur á Íslandi eftir siðaskipti. Titillinn, Dysjar hinna dæmdu, vísar í fólk sem var tekið af lífi og var dysjað utan kirkjugarðs; þau misstu þau réttindi að tilheyra samfélagi Guðs eftir dauðann. Við þekkjum sum af þessum málum, Agnesi og Friðrik, Sunnefu, sem tengist Skriðuklaustri og málin á Sjöundá. Þetta gerist á 200 ára tímabili, meira en ein aftaka á ári,“ segir Steinunn. 

Eyrun galopin

Dalalæða gaf út tónverkið Dysjar á vínylplötu 1. desember 2020. Verkið er frumburður Dalalæðu og einnig fyrsta plata útgáfufélags sem ber heitið VAX. Önnur breiðskífa sveitarinnar Hvörf kom út á fyrsta ársfjórðungi 2021 og nokkrar fleiri plötur eru komnar langt í upptökuferli; t.a.m. er Dalalæða að huga að annarri breiðskífu sinni.". Verkið Dysjar var frumflutt á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst 2020.

Meðlimir Dalalæðu eru auk Hannesar og Jóhannesar þeir Jóel Pálsson, Magnús Trygvason Eliassen og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson. Jóel segir hluta tónlistarinnar hafa orðið til í spuna. „Þarna er hægt að teygja og toga og leika sér í kringum textann en við þurfum auðvitað að hafa eyrun galopin og hlusta á hver annan því þetta er lifandi flutningur, hvort sem við erum að taka upp eða á tónleikum.“ Undir það tekur Magnús. „Það er pláss til að spinna þó verið sé að lesa ljóð sem fjalla um ljóta hluti.“

Fjölbreyttur hljóðheimur

Textana semur Jóhannes, en hann hefur komið víða við í sínum skrifum, meðal annars í hip-hop-i og rappi. „Ég held að ég hafi skrifað mest af þessu inn í eldhúsi hjá mér, þar sem ég lá yfir þessum heimildum. Síðan byrjuðum við að byggja ákveðinn hljóðheim í kringum þetta þar sem við vorum að notast við vettvangsupptökur. Þær eru notaðar á nokkrum stöðum á plötunni og tengja heiminn saman,“ segir hann. 

Dysjar var tekin upp í Sundlauginni í Álafosskvosinni; upptökum stýrði Albert Finnbogason sem jafnframt hljóðblandaði plötuna. Verkið í heild var svo leikið á tónleikum í Hvalsneskirkju þann 2. október.

Dalalæðu má nánar kynna sér hér, útgáfufyrirtækið Vax hér og vef rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dæmdu hér.