
12 kærur borist vegna þingkosninganna
Á vef Alþingis er nú að finna flest þau gögn sem undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa hefur fengið í hendurnar.
Nefndin heldur opinn fund í dag þar sem gestir verða þau Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, og Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.
Á vef þingsins má sjá þær kærur sem hafa borist vegna kosninganna.
Frambjóðendurnir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Guðmundur Gunnarsson, Hólmfríður Árnadóttir og Lenya Rún Taha Karim hafa öll kært en þau duttu út af þingi þegar atkvæði voru endurtalin í Norðvesturkjördæmi. Þá er einnig að finna kæru frá Magnús Davíð Norðdahl, oddvita Pírata í kjördæminu.
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar, er meðal þeirra sem ekki var í framboði en hefur kært kosninguna. Hann gerir það bæði vegna annmarkanna í Norðvesturkjördæmi en líka þar sem honum hafi verið meinaður réttur til leynilegra kosninga sem fötluðum einstaklingi.
Í kæru Rúnars kemur fram að hann hafi upplifað talsverð óþægindi í tengslum við fyrirkomulagið í Reykjavík suður, hann hafi séð þá kjósendur sem stóðu í biðröð við kjördeildina og fyrir vikið ekki upplifað að hann væri að taka þátt í leynilegum kosningum.
Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur, hefur skilað inn kæru til Alþingis og það hefur Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur, einnig gert.
Þorvaldur segir í kæru sinni að Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, hafi með ummælum sínum í fjölmiðlum játað að hafa brotið gegn kosningalögum. „Af þessu helgast krafan um uppkosningu í Norðvestur sem og í öðrum kjördæmum ef rannsókn lögreglu á meðferð kjörgagna þar leiðir til áþekkrar niðurstöðu og í Norðvesturkjördæmi.“
Katrín segir í kæru sinni að þeir annmarkar sem voru á kosningunum varði brot gegn rétti kjósenda til frjálsra kosninga. „Alþingi er verulegur vandi á höndum.“
Tveir kjósendur í Norðvesturkjördæmi hafa skilað inn kæru vegna kosninganna í kjördæminu. Annar áskilur sér þann rétt að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu ef ásættanleg úrlausn fæst ekki hér á landi.
Ekki er vitað hvenær undirbúningsnefndin lýkur störfum.