Vilhjálmur vill ekki út í geim

epa09329765 Prince William, Duke of Cambridge, before the UEFA EURO 2020 semi final between England and Denmark in London, Britain, 07 July 2021.  EPA-EFE/Catherine Ivill / POOL (RESTRICTIONS: For editorial news reporting purposes only. Images must appear as still images and must not emulate match action video footage. Photographs published in online publications shall have an interval of at least 20 seconds between the posting.)
 Mynd: EPA
Vilhjálmur Bretaprins segir að frumkvöðlar ættu frekar að snúa sér að því að bjarga jörðinni en að taka þátt í geimferðamennsku. Brýnna sé að vernda „þessa plánetu en að finna næsta stað til að búa á“. Hann varar þó einnig við vaxandi loftslagskvíða yngri kynslóða.

Vilhjálmur var gestur þáttarins BBC Newscast, í tilefni þess að hann mun í næsta mánuði veita umhverfisverðlaunin Earthshot Prize í fyrsta sinn.

Segja má að nýtt geimkapphlaup sé hafið. Keppinautarnir eru þó ekki stórveldi heimsins heldur nokkrir ríkustu menn heims.

Elon Musk, eigandi fyrirtækjanna Tesla og SpaceX, Jeff Bezos, stofnandi Amazon, og Richard Branson, fjárfestir og eigandi Virgin-samsteypunnar, hafa allir gert sig gildandi á þessu sviði og þeir tveir síðarnefndu raunar farið sjálfir út í geim.

Í gær varð Hollywood-leikarinn William Shatner elsti maður til að fara út í geim, í stuttri geimferð með geimflaug Blue Origin, fyrirtækis Bezos.

Hefur áhyggjur af loftslagskvíða

Nafni hans Bretaprins hefur hins vegar „alls engan áhuga“ á að leika það eftir. Þá segir hann að geimferðir veki upp áleitnar spurningar um kolefnislosun.

Vilhjálmur segir ástæðu til að hafa áhyggjur af „vaxandi loftslagskvíða“ meðal ungs fólks og segir framtíð þess ógnað.

Prinsinn segist feta í fótspor föður síns Karls, sem hafi talað um loftslagsmál áður en þau hafi verið meginstraumsumræðuefni. Hann vonist þó til þess að sonur hans muni ekki þurfa að gera slíkt hið sama.

„Það væri algert áfall ef Georg [prins] verður hér eftir 30 ár að tala um að bjarga plánetunni.“

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV