„Þurfum að grípa til tafarlausra aðgerða“

14.10.2021 - 15:18
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og neikvæð áhrif þeirra á norðurslóðir í ávarpi á opnun þings Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle. Ráðstefnan var sett í Hörpu í dag með tólf hundruð þátttakendum frá fimmtíu löndum.

„Við þurfum að grípa til tafarlausra aðgerða til að bregðast við loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Verði aðgerðirnar ekki metnaðarfullar og unnar í góðri samvinnu er hætta á alvarlegum afleiðingum á vistkerfi okkar og samfélög á norðurslóðum og víðar,“ sagði Katrín í ávarpinu. Loftslagsbreytingar væru af manna völdum og því brýnt að bregðast við.

Forsætisráðherra kom einnig inn á tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem lauk í vor og þá áherslu sem þar var lögð á jafnréttismál á norðurslóðum. 

Katrín hefur þéttskipaða dagskrá í tengslum við ráðstefnuna. Í morgun hitti hún Bárð á Steig Nielsen, lögmann Færeyja, og átti fund með Lisu Murkowski, öldungardeildarþingmanni frá Alaska, og Sheldon Whitehouse, öldungardeildarþingmanni frá Rhode Island. Hún á einnig óformlegan fund með Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV