Þorði ekki að bóka Eldborg síðast

Mynd: RÚV / RÚV

Þorði ekki að bóka Eldborg síðast

14.10.2021 - 09:59

Höfundar

„Núna ákvað ég að fara bara alla leið og taka Eldborg,“ segir Valdimar Guðmundsson um fyrirhugaða jólatónleika sína í Eldborg í Hörpu. Tónleikarnir verða hans fyrstu í salnum eftir að hljómsveitin Valdimar hefur ítrekað þurft að fresta afmælistónleikum sínum.

Söngvarinn Valdimar Guðmundsson ákvað að stökkva í djúpu laugina fyrir jólin og bókaði Eldborg í Hörpu fyrir jólatónleika sína. Það eru þó ekki bara jólalögin sem eiga hug hans allan um þessar mundir því Valdimar er einnig að kynna nýja hljómsveit, undirbúa afmælistónleika Valdimars og þá er hann nýbakaður faðir. Hann segist finna sig vel í föðurhlutverkinu. „Það er alveg stórkostlegt. Maður horfir á hann og hugsar: „Já hvernig gerðist þetta eiginlega? Þetta er bara barnið mitt þarna. Þvílíkt kraftaverk.“ Svo er hann svo fallegur. Allaveganna miðað við mig, hann fær þetta örugglega frá móður sinni. Hann er bara geggjaður,“ segir Valdimar.

Hann útilokar ekki að lagasmíðarnar taki smá breytingum og hann fari jafnvel að semja til sonar síns. „Það er komin einhver löngun. Ég er ekki alveg búinn að ná að setjast niður en ég finn það alveg og mér finnst það mjög líklegt að þetta hafi áhrif á næstu lagasmíðar,“ segir hann.

Valdimar hefur áður haldið jólatónleika í Hörpu, fyrir tveimur árum í Silfurbergi, en þá var líka stungið upp á að hann myndi bóka Eldborg. Hann segist ekki hafa þorað það þá. „Eftir á að hyggja hefði maður alveg verið til í að dúndra í Eldborg, en núna ákvað ég að fara bara alla leið og taka Eldborg. Þetta er ótrúlega spennandi,“ segir Valdimar.

Líkt og áður er gítarleikarinn Ómar Guðjónsson hljómsveitarstjóri en Ómar gegndi því hlutverki líka á síðustu jólatónleikum Valdimars. Þá heppnaðist samstarfið svo vel að þeir ákváðu að stofna nýja hljómsveit ásamt gítarleikaranum Ásgeiri Aðalsteinssyni. 

Hljómsveitin Valdimar ætlaði að halda 10 ára afmælistónleika í Eldborg í mars 2020 en hefur ítrekað þurft að fresta þeim tónleikum vegna samkomutakmarkana. Jólatónleikarnir í desember verða því fyrstu tónleikar Valdimars í Eldborg. Hann segir þó engu skipta að afmælistónleikarnir fram undan verði tólf ára afmælistónleikar í stað tíu ára afmælis. „Það er alveg jafn merkilegt. Tólf ára afmæli kemur alveg jafn oft og tíu ára afmæli,“ segir Valdimar.

Flestallir tónleikasalir landsins eru bókaðir fyrir jólatónleika í desember og Valdimar segist vita að samkeppnin um athygli áhorfenda sé mikil. „Allar kanónurnar eru í þessu. Maður er svolítið að fara með fullorðna fólkinu, en mér finnst þetta ótrúlega spennandi og skemmtilegt,“ segir Valdimar.

Hann viðurkennir þó að það sé alltaf smá stressandi að bíða eftir að miðasalan fari af stað. „Þegar miðasalan fer af stað þá hugsar maður: „Spennandi. Ætli fólk kaupi þetta eða ekki? Fer ég á hausinn um jólin?“ segir hann að lokum.