Þing rofið og kosningar framundan í Japan

14.10.2021 - 04:45
Erlent · Asía · COVID-19 · Japan · Stjórnmál
epa09522790 Diet members applaud following the dissolution of the House of Representatives of parliament in Tokyo, Japan, 14 October 2021. Prime Minister Kishida dissolved the powerful lower house of parliament for snap general elections in 31 October.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Japansþing var rofið í morgun, aðeins ellefu dögum eftir að Fumio Kishida tók við forsætisráðherraembættinu og formennsku í Frjálslynda lýðræðisflokknum. Þingkosningar verða haldnar í Japan í lok þessa mánaðar. Kishida nýtur töluverðrar lýðhylli og er Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn talinn munu vinna nokkuð öruggan sigur og fullvíst að meirihlutastjórn hans og samstarfsflokksins, hægriflokksins Komeito, muni halda velli.

Forverinn gagnrýndur fyrir slæleg viðbrögð við COVID-19

COVID-19 og viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum hafa verið helsta átakamál kosningabaráttunnar. Forveri Kishidas í forsætisráðuneytinu, Yoshihide Suga, sagði af sér í aðdraganda kosninganna, einmitt vegna mikillar óánægju kjósenda með frammistöðu hans í heimsfaraldrinum.

Það breytir því ekki að Japanar virðast treysta flokki hans og arftaka betur en stjórnarandstöðunni til að takast á við farsóttina og afleiðingar hennar á öllum sviðum samfélagsins. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefur verið nær samfellt við völd í Japan allt frá stofnun hans árið 1955.