Sigur hjá Bayern í Meistaradeildinni

epa08618849 Bayern's Lea Schuller (L) in action against Lyon's Wendie Renard (R) during the UEFA Women Champions League quarter final match between Olympique Lyon and Bayern Munich in Bilbao, Spain, 22 August 2020.  EPA-EFE/JAVIER SORIANO / POOL
 Mynd: EPA

Sigur hjá Bayern í Meistaradeildinni

14.10.2021 - 19:27
Þýska liðið Bayern München með íslensku landsliðskonurnar Glódísi Perlu Viggósdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur innanborðs vann í kvöld 4-0 sigur á sænska liðinu Häcken í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Þetta var fyrsti sigur Bayern í riðlakeppnninni, en áður hafði liðið gert markalaust jafntefli við Benfica frá Portúgal.

Lea Schüller skoraði tvívegis fyrir Bayern í leiknum við Häcken í kvöld. Linda Dallmann og Jovana Damjanovic skoruðu svo sitt markið hvor. Leikurinn var spilaður í München. Glódís Perla lék allan leikinn í vörn Bayern en Karólína lék síðustu tíu mínúturnar. Diljá Ýr Zomers lék síðustu fimm mínúturnar fyrir Häcken.

Bayern hefur 4 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en Häcken er án stiga. Nú stendur yfir hinn leikurinn í D-riðli, en í honum eigast við Lyon frá Frakklandi og Benfica. Sara Björk Gunnarsdóttir er á mála hjá Lyon, en er í barneignaleyfi.