Segir vel mögulegt að útrýma riðu á tíu árum

14.10.2021 - 13:07
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Sauðfjárbóndi sem rannsakað hefur riðu ásamt hópi sérfræðinga segir vel mögulegt að útrýma sjúkdómnum hér á landi á tíu árum. Ráðunautur í sauðfjárrækt segir ræktunarstarf vopn sem nýta mætti betur í baráttunni gegn riðu.

Riðan leikið bændur grátt í gegnum árin 

Riða er ólæknandi og banvænn smitsjúkdómur sem leikið hefur íslenska sauðfjárstofninn grátt í gegnum árin - nú síðast í Skagafirði þar sem bændur neyddust til að farga þúsundum fjár eftir að riða greindist á nokkrum bæjum. Það eru þó ekki allir fylgjandi þeirri aðferð að skera niður heilu stofnana þegar upp kemur smit. Riðusérfræðingar frá fjórum löndum hafa síðustu mánuði, undir forustu Karólínu Elísabetardóttur, leitað arfgerða í íslenska sauðfjárstofninum sem eiga að vernda gegn riðusmiti. Leitin bar árangur fyrir skemmstu þegar arfgerð sem Karólína telur að geti gagnast fannst í Austur-Húnavatnssýslu.

 „Við erum komin með slóð“

„Það fannst fyrst ein kind og þá fórum við að leita markvisst í ættingjum og þá fundum við aðra kind, þannig að við erum komin núna með slóð og það lítur mjög vel út, út frá því,“ segir Karólína.

Alþjóðlegt teymi tekur þátt

Með Karólínu eru tveir doktorar frá þýskri rannsóknarmiðstöð príonsjúkdóma. Þá hafa fulltrúar frá Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins, riðusérfræðingur frá Keldum, auk sérfræðinga frá Englandi og Ítalíu tekið þátt í verkefninu. Er þetta fyrsta rannsóknin af þessu tagi sem gerð er hér á landi í tuttugu ár en tekin eru sýni úr 2.500 kindum á Íslandi og Grænlandi. „Mín aðkoma er fyrst og fremst að skipuleggja sýnatökuna því við hjá RML erum svolítið með puttann á púlsinum varðandi ræktunarmálin og í samskiptum við bændur, víðs vegar um landið. Ég er handviss um að þetta verður mjög sterkt vopn inn í vopnabúrið að berjast gegn riðunni og við þurfum að nýta okkur þetta miklu miklu meira,“ segir Eyþór Einarsson ráðunautur í sauðfjárrækt. 

Draumur um riðulaust Ísland

Nú þegar arfgerðin er fundin segir Karólína næstu skref vera að finna hrút með þessa sömu verndandi arfgerð og fara í skipulagt ræktunarstarf. „Ég myndi jafnvel segja að það væri hægt, ef bændurnir eru duglegir að nýta sér það að þetta gæti tekist jafnvel innan tíu ára,“ segir Karólína.  

Þá ætti Ísland að geta verið riðulaust?

 „Já það væri draumurinn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Karólína og kindurnar