Ný gögn í málinu og rannsókn miðar vel

14.10.2021 - 17:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýrri rannsókn á meintu kynferðisbroti Arons Einars Gunnarssonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, árið 2010 miðar vel að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu staðfestir hann að ný gögn hafi komið fram sem urðu til þess að málið var tekið aftur til rannsóknar. Hann vill þó ekki segja til um hvaða gögn það eru.

Rannsókn málsins hófst að nýju í síðasta mánuði að beiðni brotaþola. Stuttu áður en greint var frá því, en þó eftir að rannsókn var hafin, hafði Aron Einar gefið út yfirlýsingu þar sem hann sagðist ætla að óska eftir því við lögreglu að fá að gefa skýrslu um málið og sver af sér allar ásakanir.

Lögregla veitir ekki upplýsingar um það hvort skýrsla hafi verið tekin af Aroni eða einhverjum öðrum vegna málsins.