Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Myrti flesta eftir að lögreglan rétt missti af honum

14.10.2021 - 08:22
Mynd með færslu
 Mynd: Cicilie S. Andersen - NRK
Umfangsmikil rannsókn er nú að hefjast hjá norsku lögreglunni eftir að karlmaður á fertugsaldri varð fimm að bana í bænum Kongsberg í gærkvöld. Lögreglan reyndi að hafa uppi á manninum fyrr um kvöldið og er talið að maðurinn hafi framið flest morðin eftir að hann komst undan. Fjórir konur og einn karlmaður létust í árásinni, fólkið er allt á aldrinum 50 til 70 ára.

 Maðurinn á danska móður og er með danskan ríkisborgararétt en hefur búið í Noregi allt sitt líf og hafði snúist til íslamstrúar. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu og verið í samskiptum í yfirvöld, meðal annars vegna öfgafullra skoðana.

Fram kemur á vef NRK að maðurinn hafi nokkrum sinnum hlotið dóm, hann var meðal annars úrskurðaður í sex mánaða nálgunarbann eftir að hótað tveimur úr fjölskyldu sinni lífláti.

Maðurinn var í fyrstu sagður hafa notast við boga og örvar við ódæðið en í norskum fjölmiðlum í morgun kemur fram að hann hafi einnig notast við önnur vopn þótt ekki hafi verið gefið upp hvers konar vopn það voru.

Maðurinn hefur játað sök og sagst vera einn að verki en hefur ekki viljað gefa upp ástæðu fyrir ódæðinu.

Á fréttamannafundi norsku lögreglunnar í morgun kom fram að fyrstu lögreglumenn hefðu verið sendir á vettvang klukkan 18:13 í gærkvöld en þeim mistókst að hafa hendur í hári mannsins.

Fimm mínútum síðar barst fyrsta tilkynning um að einhver hefði verið skotin með boga.   Tæpum hálftíma síðar tókst lögreglu að yfirbuga manninn.

Norska konungsfjölskyldan lýsti yfir sorg sinni í morgun vegna morðanna og sagði hug sinn hjá öllum íbúum Kongsberg.  

Jonas Gahr Støre, sem tekur við forsætisráðherraembættinu í dag, segist hafa rætt við verðandi dómsmálaráðherra um að ferðast til Kongsberg.  Hann kynnir nýja ríkisstjórn sína klukkan tíu að norskum tíma.