Metnaðarfull áform ekki nóg

14.10.2021 - 15:42
Mynd: RÚV / RÚV
Stefán Gíslason flutti umhverfispistilinn og fjallaði þá um loftlagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna sem verður haldin í Glasgow um mánaðarmótin. Það er mikið undir, ekki aðeins þarf að setja róttæk markmið - það þarf að tryggja efndir.

Á leið til Glasgow

Nú styttist í að 26. aðildarríkjaþing loftslagssamningsins verði sett í Glasgow, eða með öðrum orðum fundurinn sem í daglegu tali er kallaður COP26. Upphaflega átti þetta þing að vera á síðasta hausti, en Covid kom í veg fyrir það. Þess vegna verður þingið sem sagt sett í Glasgow 31. október nk. og ætlunin er að því ljúki 12. nóvember.

Til hvers eru svona fundir?

Nú er eðlilegt að spurt sé til hvers sé verið að halda svona fundi. Stutta svarið við því er að loftslagsmálin eru sameiginlegt viðfangsefni allra jarðarbúa og þar með allra ríkja heims og þess vegna er óhjákvæmilegt að öll ríki heims sameinist um að leysa úr vandanum. Langa svarið dugar í nokkra svona útvarpspistla, en ef við beinum sjónum okkar sérstaklega að fundinum í Glasgow, þá verður viðfangsefnið þar í aðalatriðum fjórþætt. Með öðrum orðum hafa verið sett upp fjögur markmið fyrir fundinn.

Í fyrsta lagi á að reyna að tryggja að þjóðir heims verði orðnar kolefnishlutlausar um miðja öldina, því að þannig er talið mögulegt að halda meðalhlýnun á Jörðinni innan við 1,5 gráður umfram það sem var við upphaf iðnbyltingarinnar. Markmiðið um 1,5 gráður var skjalfest á Parísarráðstefnunni 2015, þ.e.a.s. á COP21. Ef meðalhlýnunin á þessari öld verður umfram þessa einu og hálfu gráðu er talin mikil hætta á að loftslagsbreytingar af mannavöldum fari endanlega úr böndunum.

Í öðru lagi er ætlunin að komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig þjóðir heims geti unnið saman að aðlögun að loftslagsbreytingum til að verja vistkerfi, hýbýli manna og afkomumöguleika fólks.

Í þriðja lagi standa vonir til að í Glasgow komi fram skýr skilaboð um að ríkustu ríki heims, einkageirinn og fjármálastofnanir ætli að standa við gefin loforð um að leggja samtals 100 milljarða dollara í sérstakan loftslagssjóð á hverju ári frá og með árinu 2020. Það ætti reyndar ekki að vera mikið vesen þegar haft er í huga að á síðasta ári er talið að ríki heims hafi varið nærri 20-faldri þeirri upphæð til hermála. Það er sem sagt til nóg af peningum.

Í fjórða lagi er Glasgowfundinum ætlað að „þétta raðirnar“ eins og það er stundum kallað, þ.e.a.s. að efla alþjóðlegt samstarf í loftslagsmálum, þ.m.t. samstarf á milli stjórnvalda, atvinnulífsins og almennings, m.a. með því að ganga frá svokallaðri Parísar-reglubók með nákvæmum skýringum á því hvernig eftirfylgni Parísarsamningsins skuli háttað.

Metnaðarfull áform?

Ítarleg umfjöllun um markmiðin fjögur fyrir Glasgowfundinn rúmast ekki í einum útvarpspistli, þannig að líklega er best að láta svolítið spjall um fyrsta markmiðið nægja, þ.e.a.s. markmiðið um að reyna að tryggja að þjóðir heims verði orðnar kolefnishlutlausar um miðja öldina. Mikilvægur liður í að ná því markmiði er að leiðtogar þjóða heims mæti til Glasgow með metnaðarfull áform í farangrinum, nánar tiltekið uppfærð „landsframlög“ eins og það var kallað í París 2015. Megininntak Parísarsamningsins var nefnilega að öll ríki heims, hvert fyrir sig eða sameiginlega, ættu að setja sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, sem dygði til þess að halda hlýnuninni innan við 2 gráður – og helst innan við 1,5. Þessi markmið eru það sem kallað er „landsframlög“.

Skýrsla gærdagsins

Í gær gaf Alþjóða orkumálastofnunin út árlega skýrslu sína undir yfirskriftinni World Energy Outlook, sem er eins og titillinn bendir til eins konar spá um þróun orkumála í heiminum. Skýrslan er að þessu sinni einmitt helguð fundinum í Glasgow – og þá sérstaklega þeim metnaðarfullu áformum sem vonast er til að leiðtogar þjóða heims mæti með í farangrinum. Þessi áform liggja reyndar fyrir nú þegar, enda er svona markmiðssetning á landsvísu aðeins flóknari en svo að forsætisráðherra viðkomandi lands hripi markmiðin aftan á ælupokann í flugvélinni á leiðinni til Glasgow. Og niðurstaða Alþjóða orkumálastofnunarinnar er ekkert sérlega uppörvandi hvað þetta varðar: Metnaðarfullu áformin eru sem sagt alls ekki nógu metnaðarfull, þar sem þau duga ekki til að ná kolefnishlutleysi um miðja öldina, jafnvel þótt öll þeirra verði að veruleika. Nánar tiltekið reiknast stofnuninni til að þessi áform (já, ætli maður verði þá ekki að hætta að tala um „metnaðarfull áform“), að þessi áform muni í besta falli leiða til 40% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2050.

Að „fá fyrir peninginn“

Í skýrslunni sem Alþjóða orkumálastofnunin gaf út í gær er líka rýnt í þær fjárhæðir sem þjóðir heims munu þurfa að reiða fram til að loka þessu 60 prósenta gati, þ.e.a.s. bilinu á milli þess 40% samdráttar í losun sem næst ef öll ríkin standa við loforðin sín og þess 100% samdráttar sem þarf að nást fyrir árið 2050. Verðmiðinn á þessu gati, að mati stofnunarinnar, er 2.940 milljarðar dollara á næstu 10 árum. Það er náttúrulega hellingur af peningum, en samt kannski ekki svo óyfirstíganlegt þegar haft er í huga að það er rétt um það bil 50% hærri upphæð en varið er til hermála á hverju ári, svo maður grípi nú aftur til þess samanburðar. Og það þarf svo sem enginn að halda að þessir 2.940 milljarðar færi þjóðum heims engan ávinning nema minni loftslagsbreytingar og öruggari lífsskilyrði, sem út af fyrir sig kallast þó að fá talsvert fyrir peninginn. Með í þessum kaupum fylgir líka fjöldinn allur af nýjum störfum og nýjum tækifærum. Já, og svo kemur slatti af betri heilsu með í þessum pakka líka, m.a. vegna betri loftgæða sem eru ekkert endilega í beinum tengslum við losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er sem sagt enginn fórnarkostnaður eða glataðir peningar, heldur þvert á móti verðmiðinn á betra lífi. Og svo er líka hægt að orða þetta eins og Fatih Birol, forstjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar, hefur gert: „Félagslegur og efnahagslegur ávinningur af því að flýta fyrir hreinum orkuskiptum er gríðarlegur, en það er kostnaðurinn við aðgerðarleysi líka“. Það er nefnilega ekki nóg að reikna út hvað kostar að grípa til aðgerða. Það þarf líka að reikna hvað kostar að gera það ekki.

Viljum við 26 milljónir nýrra starfa?

Og Alþjóða orkumálastofnunin er með fleiri góðar fréttir: Samkvæmt þeirra niðurstöðum vill nefnilega svo vel til að meira en 40% af þeim fjármunum sem þarf að setja í nýjar og grænar orkulausnir skila sér sjálfkrafa til baka. Þetta á m.a. við um aðgerðir til að bæta orkunýtni, takmarka gasleka og setja upp vind- og sólarorkustöðvar þar sem þörf er á meiri endurnýjanlegri orku. Og fyrst ég minntist nú á að skapa ný störf, þá telur stofnunin að með því einu að standa við loforðin sín muni ríkisstjórnir heimsins skapa 13 milljónir nýrra starfa – og að sú tala myndi tvöfaldast ef stefnan væri í alvöru tekin á kolefnishlutleysi á heimsvísu árið 2050.

Bjart framundan!

Meginniðurstaðan er sem sagt sú, að ef ráðamenn heimsins þora að mæta til Glasgow með metnaðarfyllri áform en þau sem nú liggja á borðinu, þá er bjart framundan!

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður