Lögreglan rannsakar eldsvoðann í Hafnarfirði

14.10.2021 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú eldsvoða í þríbýli við Álfaskeið í Hafnarfirði þar sem kona á sjötugsaldri lést. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að tæknideildin sé að störfum og verið sé að taka skýrslur af bæði nágrönnum og aðstandendum konunnar.

Margeir segir konuna hafa búið eina í íbúðinni ásamt hundinum sínum. Dýrið drapst í eldsvoðanum.

Verið sé að rannsaka eldsupptök en ekkert bendi til þess að eldurinn hafi kviknað út frá íkveikju.  Margeir segir að svo virðist sem eldurinn hafi ekki logað glatt heldur hafi verið mikill hiti frá reyknum í íbúðinni.

Fram kom í færslu á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í morgun að tilkynning um reyk frá íbúðinni hefði borist klukkan tvö í nótt.

„Þegar slökkvilið kom á staðinn var tilkynnt að kona væri inni í íbúðinni, reykkafar voru sendir inn og fannst konan fljótlega og var úrskurðuð látin á vettvangi. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en reykur barst í aðrar íbúðir og fengu íbúar aðstoð Rauða krossins með gistingu og áfallahjálp.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV