KA hafði betur í toppslagnum - Öruggt hjá Hamri

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Valdimar Steinþórsso - Afturelding

KA hafði betur í toppslagnum - Öruggt hjá Hamri

14.10.2021 - 09:04
KA hafði betur gegn Aftureldingu í toppslag úrvalsdeildar kvenna í blaki í gærkvöld. KA vann leikinn 3-0, en allar hrinurnar voru þó jafnar og spennandi.

Bæði liðin voru með níu stig eftir þrjá leiki en KA hafði tapað einni hrinu en Afturelding engri fyrir leikinn, svo um toppslag var að ræða. Afturelding leiddi lengst af í fyrstu hrinu en KA náði svo vopnum sínum. Hrinan fór í upphækkun og lauk loks 31-29 fyrir KA.

KA vann svo hrinu tvö 25-20 og tryggði sér sigurinn eftir upphækkun, 27-25. Stigahæst í liði KA var Thea Andric með 18 stig og Paula del Olmo Gomez með 9 stig. Í liði Aftureldingar var Thelma Dögg Grétarsdóttir stigahæst með 19 stig og María Rún Karlsdóttir með 12 stig.

Hamar á miklu skriði

Í úrvalsdeild karla í blaki er Hamar á toppnum með fullt hús stiga. Hamar vann öruggan sigur á Fylki á heimavelli sínum í Hveragerði í gærkvöld. Mótspyrnan var mest í fyrstu hrinu en fór svo minnkandi. Hamar fvann fyrstu hrinuna 25-18, aðra hrinu 25-15 og þriðju hrinuna 25-14 og leikinn því 3-0.

Maður leiksins var Wiktor Mielczarek kantmaður Hamars en hann var stigahæstur í leiknum með 12 stig, þar af 8 skoruð með smassi, 3 úr uppgjöf og 1 úr hávörn. Stigahæstur í liði Fylkis var Alexander Stefánsson með 7 stig. Hamar er eftir leikinn í 2. sæti deildarinnar með 12 stig eftir fjóra leiki en HK er á toppnum, einnig með fullt hús stiga en Hamarsmenn eiga leik til góða.