Mynd: Arctic Circle

Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.
Hringborð Norðurslóða hefst í dag
14.10.2021 - 08:21
Um 1.200 manns frá yfir 50 löndum sækja þing Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem hefst í Hörpu í dag. Þetta er fyrsta stóra alþjóðlega samkoman í Evrópu síðan heimsfaraldurinn hófst.
Yfir 100 málstofur með fleiri en 400 ræðumönnum eru á dagskrá þingsins sem lýkur á sunnudag. Meðal gesta eru Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands, Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur og Jongmoon Choi aðstoðarutanríkisráðherra Suður-Kóreu.
Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands og forsvarsmaður Hringborðsins setur þingið formlega í Hörpu i dag klukkan 13. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur einnig ræðu við upphaf þingsins.
Málefni Grænlands verða ofarlega á baugi á þinginu og sérstaklega fjallað um nýlega skýrslu um stöðu Íslands og Grænlands á Norðurslóðum.
Á þinginu verður einnig rætt um komandi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í Skotlandi sem hefst í byrjun næsta mánaðar.