Hrikalegur glæpur sem kallar á aðstoð allra

14.10.2021 - 20:52
Grænlenska þingið að utan
 Mynd: Danmarks Radio
Vísbendingar tóku að streyma inn eftir að lögreglan á Grænlandi birti nafn mannsins sem fannst látinn við sorpbrennslu í bænum Ilulissat. Jan Lambertsen sem stjórnar rannsókninni segir margar vísbendingar hafa borist um ferðir mannsins í aðdraganda þess að hann var myrtur.

Hinn látni var 24 ára heimamaður og hét Maassannguaq Dalager. Lambertsen segir í samtali við KNR að upplýsingar um ferðir hans séu afar mikilvægur þáttur í að greina hvað gerðist fram að því að hann lést.

Hann segir að heildarmynd atburðanna sé smám saman að raðast saman en margt sé þó enn á huldu. Enn eigi eftir að meta fjölda vísbendinga og sönnunargagna, þeirra á meðal lífsýni og fingraför auk þess sem enn bíður fjöldi fólks yfirheyrslu vegna rannsóknarinnar.

Lambertsen kallar eftir frekari aðstoð borgaranna við að raða myndinni saman, vera kunni að einhver hafi orðið einhvers var en hafi ekki enn stigið fram með vitneskju sína.

„Þetta er svo skelfilegur glæpur að við þurfum aðstoð allra við að leysa málið,“ segir Lambertsen. Karlmaður situr í fjögurra vikna gæsluvarðhaldi grunaður um morðið og kona sat í þriggja sólarhringa gæslu grunuð um aðild að því.