„Fólk er hálf lamað yfir þessu“

14.10.2021 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: Aron Þorfinnsson/Facebook
Aron Þorfinnsson, verkfræðingur sem býr í Kongsberg, segir bæjarbúa í áfalli. Sjálfur var hann heima þegar árásin átti sér stað. Hann hefði aldrei getað ímyndað sér að voðaverk yrðu framin í bænum. 

 

„Fólk er eiginlega bara í sjokki, bara hálf lamað yfir þessu. Vinur minn, annar Íslendingur sem býr hérna, dóttir hans var bara í bíó og það er bara þarna við hliðina á. Við göngum um þetta svæði kvölds og morgna í hverri viku,“ segir Aron. 

Frétti af fjölda lögreglubíla á leið til bæjarins

Hann segist fyrst hafa fengið veður af því að eitthvað væri að gerast í gegnum nákomna manneskju sem var á leiðinni út úr bænum og mætti fjölda  lögreglubíla með leiftrandi blá ljós.

Þegar hann skoðaði staðarmiðlana var þar að finna stutta fréttatilkynningu um að það væri maður með boga og örvar í miðbænum og fólk væri beðið um að halda sig innandyra. „Ég sló bara öllum ferðalögum á frest í smá tíma og beið átekta,“ segir Aron. 

 

Police at the scene after an attack in Kongsberg, Norway, Wednesday, Oct. 13, 2021. Several people have been killed and others injured by a man armed with a bow and arrow in a town west of the Norwegian capital, Oslo. (Hakon Mosvold Larsen/NTB Scanpix via AP)
 Mynd: AP
Lögreglumenn á vettvangi árásarinnar.

 

Viðbúnaðurinn ágerðist, fleiri lögreglubílar, þyrlur og sérsveitarbílar streymdu til bæjarins. „Þá fór ég að skoða símann minn og fljótlega fóru að koma meldingar og sms frá fólki, þá var þetta farið að spyrjast út.“ Fólk lét vita að það væri í lagi með sig og vildi fá á hreint hvort aðrir væru öruggir. 

Fimm eru látin og tvö særð eftir árás mannsins. Hann er 37 ára, búsettur í Kongsberg og í haldi lögreglu. 

Fjarstæðukennt

Tæplega 30.000 manns búa í Kongsberg, sem er um 70 km frá höfuðborginni Osló. Aron segist aldrei hefðu getað gert sér í hugarlund að voðaverk yrðu framin í bænum, sem er smábær með tæplega 30 þúsund íbúa. „Ég hefði lagt undir mörg önnur veðmál heldur en að þetta myndi gerast hér en svona hlutir gerast bara,“ segir hann.