Eldur virðist hafa kraumað lengi áður en útkall barst

14.10.2021 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Vísbendingar eru um að eldur hafi náð að krauma býsna lengi, áður en útkall barst slökkviliðinu í Hafnarfirði í nótt. Þetta segir varðstjóri hjá slökkviliðinu. Kona á sjötugsaldri lést í eldsvoðanum, sem kom upp í þríbýlishúsi. 

Slökkviliðinu barst útkall rétt fyrir klukkan tvö. Rúnar Helgason, varðstjóri segir að töluverður reykur hafi blasað við slökkviliðsmönnum en ekki mikill eldur. „Það var tiltölulega staðbundinn og mjög lítill eldur í raun og veru, ákveðnar vísbendingar um að hann hafi verið búinn að krauma þarna í einhvern tíma.“

Þannig að útkallið hefur sennilega komið svolítið seint? 

„Já, það eru vísbendingar um það,“ segir Rúnar.  

Reykkafarar voru sendir inn. Þeir voru fljótir að slökkva eldinn og finna konuna sem var úrskurðuð látin á staðnum. Íbúar hússins fengu áfallahjálp frá Rauða krossinum. Lögreglan rannsakar eldsupptök en Rúnar segir að húsnæðis- og mannvirkjastofnun eigi sömuleiðis eftir að rannsaka vettvanginn.