Eldsupptök enn óljós

14.10.2021 - 18:38
Mynd: RÚV / RÚV
Upptök eldsvoðans í Hafnarfirði, þar sem kona lést í nótt, eru enn óljós að sögn yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðin var full af reyk og mikill hiti.

Slökkviliðinu barst útkall rétt fyrir klukkan tvö í nótt vegna eldsvoða í þríbýlishúsi við Álfaskeið í Hafnarfirði. Tæknideild lögreglunnar var að störfum á vettvangi í dag.

„Við vitum raunverulega ekki mjög mikið, ekkert um eldsupptök enn þá til að fara út í en auðvitað liggur það fyrir að þarna varð töluvert tjón og mannslát,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

En er einhver grunur um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað?

Rannsóknin lýtur bara að því að leiða í ljós hvað gerðist,“ segir hann. „Hluti af rannsókn er alltaf bara að það er algerlega opið hvað gerðist, en í augnablikinu eru ekki sérstakar grunsemdir um að þarna hafi refsiverð háttsemi átt sér stað.“

Konan sem lést var á sjötugsaldri, hún bjó ein í íbúðinni en íbúi í húsinu hringdi á neyðarlínuna. Það var ekki mikill eldur þegar slökkviliðið kom á vettvang en íbúðin var full af reyk og mikill hiti.

Reykkafarar fóru inn og fundu konuna fljótlega. Hún var úrskurðuð látin á vettvangi.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn en reykur barst í aðrar íbúðir og fengu íbúar þeirra áfallahjálp frá Rauða krossinum og aðstoð við að finna sér gistingu.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV