Ekkert enn vitað um eldsupptök í Hafnarfirði

grímur grímsson yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr - RÚV
Ekkert er enn vitað um upptök eldsvoðans í Hafnarfirði, þar sem kona lést í nótt. Þetta segir yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðin var full af reyk og mikill hiti. 

Ekki grunsemdir um refsiverða háttsemi

Slökkviliðinu barst útkall rétt fyrir klukkan tvö í nótt vegna eldsvoða í þríbýlishúsi við Álfaskeið í Hafnarfirði. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn málsins á frumstigi. 

„Tæknideildin er enn að störfum á vettvangi þannig að við vitum í raun ekki mjög mikið, ekkert um eldsupptök enn til að fara út í, en auðvitað liggur það fyrir að þarna varð töluvert tjón og mannslát,“ segir Grímur. 

Hann segir ekkert benda til íkveikju eða annarrar saknæmrar háttsemi. „Rannsóknin lítur bara að því að leiða í ljós hvað gerðist, hluti af rannsókn er að það er algerlega opið, en í augnablikinu eru ekki sérstakar grunsemdir um að þarna hafi refsiverð háttsemi átt sér stað.“

Íbúi hringdi á neyðarlínuna

Konan bjó ein í íbúðinni en íbúi í húsinu hafði samband við neyðarlínuna. Rúnar Helgason, varðstjóri hjá slökkviliðinu, segir vísbendingar um að eldurinn hafi náð að krauma býsna lengi, áður en útkall barst.

Það var ekki mikill eldur þegar slökkviliðið kom en íbúðin var full af reyk og mikill hiti. Reykkafarar fóru inn og fundu konuna fljótlega. Hún var úrskurðuð látin á vettvangi. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en reykur barst í aðrar íbúðir og fengu íbúar þeirra áfallahjálp frá Rauða krossinum og aðstoð við að finna sér gistingu.