Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Danskri grínmynd um bogamann í Noregi frestað

14.10.2021 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: Nordisk Film
Frumsýningu danskrar grínmyndar um mann, sem gengur um vopnaður boga og örvum, hefur verið frestað. Óheppileg líkindi þykja milli myndarinnar og þeirra voðaverka sem framin voru í Kongsberg í Noregi í gær, einkum í ljósi þess að myndin er tekin upp í Noregi.

Myndin, sem ber heitið Villimaðurinn, segir frá manni sem segir skilið við samfélag nútímamannsins og flytur til Noregs til að ferðast um náttúruna og veiða sér til matar. Á auglýsingaplakati myndarinnar er „villimaðurinn“ staddur í norskri matvöruverslun með bogann. 

Nordisk Film gefur myndina út og átti að frumsýna hana 11. nóvember. Í tilkynningu segir að frumsýningunni hafi verið frestað um óákveðinn tíma þar sem því þyki óviðeigandi að gefa myndina út að svo stöddu. Er þess sérstaklega getið að líkindin milli myndarinnar og harmleiksins í Kongsberg séu tilviljun.

Fimm létust þegar danskur maður vopnaður boga lét til skarar skríða í miðborg bæjarins Konsgsberg í Noregi í gær.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV