Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brexit og efi um heilindi Breta

14.10.2021 - 17:04
Mynd: RÚV / RÚV
Brexit er aftur á dagskrá í Bretlandi. Ófrágengni Brexit kaflinn er sérstök bókun um Norður-Írland í útgöngusamningi Breta við Evrópusambandið. Nauðsynlegur liður til að útganga Breta úr ESB yrði að veruleika í fyrra. Málalyktir, sem Boris Johnson forsætisráðherra þakkaði sér því hann hefði afrekað, það sem forvera hans Theresu May misheppnaðist.

Brexit-lausnin sem Johnson valdi en May taldi ótæka

Boris Johnson forsætisráðherra Breta kom Brexit í gegn með lausn, sem Theresa May forveri hans sagði á sínum tíma að enginn breskur forsætisráðherra gæti valið. Það er að skilja Norður-Írland eftir í innri markaði ESB og draga þannig vöru- og þjónustulandamæri milli Norður-Írlands og hinna hluta Bretlands.

Lengi heyrst að Johnson hafi aldrei ætlað að standa við norður-írsku bókunina

En það sem May áleit fráleita og ótæka lausn, þetta að kljúfa landið, var Johnson alveg til í. Því hefur lengi verið fleygt að Johnson hafi í raun aðeins samþykkt þetta til að klára útgönguna, koma Brexit frá. Síðan ætlað að endursemja um þetta. Dominic Cummings fyrrum ráðgjafi Johnsons, nú ærlega gagnrýninn á fyrrum húsbónda sinn, tísti í vikunni að jú, alltaf ætlunin að endursemja, ekki standa við bókunina.

Sama fullyrti Ian Paisley þingmaður norður-írska Lýðræðislega sambandsflokksins í vikunni.

Boris Johnson hafi sagt sér fyrir tveimur árum, fyrir atkvæðagreiðsluna í breska þinginu um útgöngupakkann, að hann myndi taka bókunina aftur upp, afskrifa hana.

Bretar kynntu sínar tillögur að lausn í sumar

Þetta er nú rifjað upp því Norður-Írlandsbókunina og útfærsla hennar aftur til umræðu. Bretar kynntu sína afstöðu í sumar. Breska lykilmálið samkvæmt bókuninni að fyrirkomulag vöruafgreiðslu eins og matvæla og lyfja til og frá Norður-Írlandi sé allt of dýrt og þungt í vöfum.

ESB leggur fram sínar tillögur

ESB hefur nú lagt fram sínar tillögur um norður-írsku bókunina. Býður mikla einföldun á því fyrirkomulagi eins og Maros Sefkovic varaforseti framkvæmdastjórnar ESB lýsti á blaðamannafundi í gær þegar hann kynnti tillögur ESB.

Ef verið er að flytja hundrað matvælavörur þá þarf ekki hundrað leyfi heldur aðeins eitt, sagði Sefkovic. Þarna komið til móts við kvartanir verslunareigenda og framleiðenda á Norður-Írlandi. – Í Bretlandi heyrist af hverju þetta hafi ekki boðist þegar bókunin var gerð. Á móti er bent á að Bretar hafi talið bókunina sigur.

Ný bresk aðfinnsluatriði: lögsaga ESB-dómstólsins

Nú telur breska stjórnin hins vegar að bókunin strandi á fleiru en vöruafgreiðslu. Í viðbót við einfaldari reglur um vöruflutninga til og frá Norður-Írlandi stendur lögsaga dómstóls ESB í bresku stjórninni. En lögsagan er, að mati ESB, alls ekki útfærsluatriði, því ekki til umræðu, heldur óaðskiljanlegur hluti innri markaðar ESB, sem Norður-Írland er hluti af, samkvæmt bókuninni. Á þessu hnykkti Sefkovic.

Lögsagan ekki áður breskt lykilmál

Í tillögum Breta frá í júlí varðandi Norður-Írlandsbókunina er lögsagan aðeins nefnd í tveimur af 79 greinum. Boris Johnson forsætisráðherra nefndi lögsöguna hvorki í formála að tillögunum né ræddi hana þá.

Tilfinningin í Brussel: Bretar noti lögsöguna til að tefla á tæpasta vað

Tilfinningin í Brussel og næstu ESB-nágrannaríkjum Breta er að lögsaga dómstólsins sé aðeins bakþankar, sem Bretar hengi sig í til að tefla öllu á tæpasta vað. Þeir hafi aldrei ætlað að fylgja bókuninni, aðeins samþykkt hana til að hespa Brexit af. Nú þurfi ESB að vera við öllu búið.

Varadkar: aðrir hljóta að spyrja hvort breskum loforðum sé treystandi

Johnson samþykkti norður-írsku lausnina eftir að ræða við Leo Varadkar, þá forsætisráðherra Írlands, nú varaforsætisráðherra. Varadkar var í vikunni skekinn þegar það var borið undir hann að breska stjórnin hefði samþykkt bókunina en aldrei ætlað að standa við hana, heldur fá henni breytt síðar.

Skilaboðin sem nú bergmála um allan heim hljóta að vera þau að ekki gera neinn samning við bresku stjórnina, ekki skrifa undir neinn sáttmála við Bretland, fyrr en að vera fullviss um að þetta er land sem stendur við orð sín, sagði brúnaþungur Varadkar.

Erfitt að endurheimta glatað traust

Og hvað er þá fram undan? Bretland vill endursemja. ESB vill ræða málin, grundvallarmunur þar á. Nú taka við viðræður, sem án efa munu gefa Frost og fleiri íhaldsmönnum tækifæri til stóryrtra yfirlýsinga. Öll orðræðan um þennan Brexit-hala er hápólitískt mál í Bretlandi, sem stjórnin reynir að gera sér sem mestan mat úr. Hinum megin Ermasunds er þessi hali aðeins afgreiðslumál, sem menn vilja leysa en nú reynslunni ríkari um vægi loforða bresku stjórnarinnar. Það er erfitt að endurvekja traust sem hefur gufað upp.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir