Bjuggu til safn úr gamla dótinu sínu

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Bjuggu til safn úr gamla dótinu sínu

14.10.2021 - 07:50

Höfundar

„Ég myndi ekki segja að við séum safnarar. Við erum frekar svona geymarar. Við geymum hluti,“ segir Guðfinna Sverrisdóttir ferðaþjónustubóndi í Einishúsum í Reykjadal sem hefur ásamt Eini Viðari Björnssyni, eiginmanni sínum, sett upp safn með persónulegum munum úr eigu fjölskyldunnar.

 

Safnið, sem þau kalla Persónulega safnið, er afleiðing Covid-faraldursins því þegar lítið var um ferðamenn í fyrravetur ákváðu þau að nota tímann og taka til í geymslunum.

„Og þá fundum við mikið af dóti sem okkur langaði ekki til að henda. Þá kom sú hugmynd að búa til safn,“ Segir Guðfinna. 

Á safninu kennir ýmissa grasa, þar eru leikföng frá þeim hjónum, brúðarfötin, skólahandavinnan og gömlu fermingarskeytin svo fátt eitt sé nefnt.

„Það er mikið skemmtilegra að sjá þetta svona uppi og leyfa öðrum að sjá heldur en að vita af þessu í kössum sem aður kíkti aldrei í,“ segir Einir