Bandaríkin aftur í Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

14.10.2021 - 03:55
Egyptian President Abdel Fattah el-Sisi speaks during the 71st session of the United Nations General Assembly at U.N. headquarters, Tuesday, Sept. 20, 2016. (AP Photo/Mary Altaffer)
Frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna Mynd: AP
Bandaríkin snúa aftur í Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna um næstu áramót, þremur og hálfu ári eftir að þau gengu formlega úr ráðinu í forsetatíð Donalds Trumps.

Kosnir verður í Mannréttindaráðið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Kosnir verða 18 fulltrúar af þeim 47 sem eiga sæti í ráðinu hverju sinni. Kjörtímabilið er þrjú ár og hefst fyrsta janúar. Þótt kosningarnar séu leynilegar er engu að síður er ljóst hvaða 18 ríki verða kosin í dag því einungis 18 ríki eru í framboði, þar á meðal Bandaríkin.

Sakaði Mannréttindaráðið um hræsni og ofsóknir í garð Ísraels

Ráðinu er ætlað að styrkja, efla og berjast fyrir mannréttindum um allan heim, taka á mannréttindabrotum og mæla fyrir um úrbætur. Bandaríkin gengu formlega úr ráðinu um mitt ár 2018, á miðju kjörtímabili sínu. Trump sagði ástæðurnar þær helstar að þar réði hræsnin ríkjum og engu líkara en ráðið teldi það sitt helsta hlutverk að hamast á Ísraelsríki.

Íslendingar buðust til að fylla skarð Bandaríkjanna það sem eftir lifði kjörtímabilsins og fengu góða kosningu til þess.

Óttast að deilur Kínverja og Bandaríkjanna spilli starfi ráðsins

Í frétt AFP segir að Kínverjar hafi notfært sér fjarveru Bandaríkjanna til að auka áhrif sín í Mannréttindaráðinu verulega. Þar segir að allt frá því að Biden boðaði endurkomu Bandaríkjanna í ráðið og Bandaríkin fengu þar áheyrnarfulltrúa í byrjun þessa árs hafi starf þess og umræður ráðsins farið að snúast æ meira upp í reiptog stórveldanna tveggja.

Haft er eftir forstjóra hugveitu á sviði mannréttindamála í Genf, þar sem Mannréttindaráðið er líka með höfuðstöðvar sínar, að fyllsta ástæða sé til að óttast að þessi pólitísku átök risaveldanna verði allsráðandi eftir að Bandaríkin fá aftur fulla aðild að ráðinu, en hið raunverulega og mikilvæga hlutverk ráðsins verði látið sitja á hakanum.

Umdeild stofnun

Mannréttindaráðið er umdeild stofnun. Er það gjarnan gagnrýnt fyrir að koma litlu til leiðar í mannréttindamálum heimsins, enda hafi það engin raunveruleg völd. Þá þykir mörgum það skjóta skökku við, að í ráðinu sitji iðulega fulltrúar ríkja, sem ekki þykja til fyrirmyndar í mannréttindamálum. Aðrir halda því aftur á móti fram að ekkert þokist í rétta átt nema fulltrúar slíkra ríkja fái að taka þátt í störfum ráðsins.