Að sogast inn í svarthol er góð skemmtun

Mynd: Kælan Mikla / Kælan Mikla

Að sogast inn í svarthol er góð skemmtun

14.10.2021 - 12:00

Höfundar

Undiraldan er frekar djúp að þessu sinni og við fáum kuldapopp frá hressu stelpunum í Kælunni miklu og Gróu. Önnur með nýtt eða nýlegt eru þau Sindri Sin Fang, Hugrún, Milkhouse, Benedikt Gylfason og indie-krakkarnir í Supersport!

Kælan mikla ásamt Alcest - Hvítir sandar

Kuldapoppssveitin Kælan mikla hefur sent frá sér lagið Hvítir sandar og eins og undanfarið er Barði Jóhannsson á tökkunum. Til samstarfs kalla þær franska post-svartmetalsbandið Alscest en Máni Sigfússon vann með þeim myndband við lagið.


Gróa - Ég skal bíða eftir þér

Í enda sumars sendi hljómsveitin Gróa frá sér plötuna What I Like To Do sem er þriðja plata sveitarinnar í heimilislegum post-punkstíl. Sveitin er skipuð þeim Fríðu Björgu Pétursdóttur á bassa, Hrafnhildi Einarsdóttur á trommur og söngkonunni Karólínu Einarsdóttur.


Sin Fang - Snowbody

Sindri Már Sigfússon hefur sent frá sér lagið Snowbody undir nafninu Sin Fang en lagið er að hans sögn gert í tilefni útgáfu hjólabrettis hjá bandaríska fyrirtækinu SOVRN - sem Sindri hannaði.


Hugrún - Afterlife

Tónlistarkonan Hugrún Britta Kjartansdóttir sendi nýlega frá sér plötuna When I Close My Eyes sem er hennar fyrsta í fullri lengd. Lagið Afterlife er að finna á plötunni en lag og ljóð er eftir þau Hugrúnu og Erik Sjösted.


Milkhouse - Dagdraumar Vol. 7

Hljómsveitin Milkhouse sendi í lok sumars frá sér lagið Dagraumar Vol. 7 en sveitin er skipuð þeim Andrési Þór Þorvarðarsyni, Auðunni Orra Sigurvinssyni, Katrínu Helgu Ólafsdóttur, Victori Karli Magnússyni og Sævari Andra Sigurðarsyni. Þá koma við sögu blástursleikararnir Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Þórður Hallgrímsson, Þórunn Eir Pétursdóttir og Steinn Völundur og auk þess syngja þær Annalísa Hermannsdóttir og Salóme Katrín Magnúsdóttir bakraddir.


Benedikt Gylfason - With My Girls

Benedikt Gylfason er 19 ára söngvari, lagahöfundur og pródúsent úr Reykjavík sem stundar nám í tónlist og jazzpíanóleik auk þess að vera í MH. Lagið With My Girls er óður til allra frábæru vinkvenna hans, og er skemmtilegur til að syngja hátt með í bílnum eða dansa við, segir í tilkynningu.


Supersport! - Lag í partýi

Fyrsta breiðskífa sveitarinnar Supersport!, Tveir dagar, kom út hjá útgáfusamlaginu Post-dreifingu og japönsku plötuútgáfunni Gifted um miðjan september. Lagið Hring eftir hring var mikill sumarslagari hjá indie-krökkum enda sveitin vel mönnuð meðlimum úr íslensku post-pönksenunni.